Laugardaginn 3. júlí næstkomandi, þegar stundin slær fjögur, opnar Þrándur Leppatuska Þórarinsson sýningu sína „Gasalega lekkert“ í Gallerí Port, Laugavegi 23b, sem inni mun halda lítið eitt af ósjálegum málaraverkum, ef málaraverk skyldi kalla.
Frjó er friðsæl stund og hefur „listmálarinn“ ötullega aukið nýjum dráttum við striga sína eigi allskamma hríð.
Sýningargestum er einboðið að hlýða á hörpuslátt og væta vitsmuni sína með kaffi-, vín- eða kamfórudropum, og ekki verður ölbrestur. Veitingar eigi skornar við nögl og þarf enginn þurrbrjósta frá að hverfa af sýningunni, “Gasalega lekkert”.
Árni Már Erlingsson, annar sýningarstjórinn mun ganga tindilfættur um beina af þekktri þrjósku sinni og festu, raula einkennilega lagleysu og væla ámótlega, gestum og gangandi til spotts og ama, og hafa sýninguna þannig að skimpi. Á samri stundu mun Skarphéðinn Bergþóruson, senditík hans og samverkamaður, uppstökkur og bilaður á taugum, blóðroðna og glúpna og sýna meir en lítið ráðleysi á ögurstundu í veisluhöldunum.
Látið sýninguna „Gasalega lekkert“ ekki fara ykkur milli þils og veggjar, en eftir öllum sólarmerkjum að dæma verður henni best fyrir komið hjá andskotanum.
– – –
Sýningin stendur yfir til 15. júlí og er opið miðvikudaga til laugardags, og eftir samkomulagi. Áhugasamir um einkayfirferðir hafi samband í skilaboðum
https://www.facebook.com/events/405273810712233?active_tab=about