Sveitastjórn fundaði um ástandið
Tilkynnt var um grjóthun á Kirkjubólshlíð snemma í morgun. Hjá Vegagerðinni fékkst staðfest að tilkynning um grjóthrun á Kirkjubólshlíð barst um korter í 7 í morgun. Stór björg voru á veginum og önnur höfðu runnið fram í sjó. Önnur tilkynning barst skömmu síðar um grjóthrun á Súðavíkurhlíð, sem einnig þurfti að hreinsa.
Starfsmenn voru ræstir út um leið og allt grjót hreinsað af veginum í snarhasti. Umferð komst framhjá grjótinu segir í svari Vegagerðarinnar að sögn fréttamiðilsins BB.is.
Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri fjallaði um málið á vef sínum og þar segir hann:
,,Af fundi sveitarstjórnar í morgun þar sem stuttar umræður komu fram um umfjöllun um grjótrun á Kirkjubóls og Súðavíkurhlíð. Þetta þykir orðið það sjálfsagt að þetta nær ekki flugi á miðlum landsins frekar en það að flestir vakni að morgni til daglegs lífs.
Umræður um jarðgangagerð á Íslandi samkvæmt drögum að samgönguáætlun eru nokkuð magnaðar. Ýmist er það að röðun jarðgangakosta inni á samgöguáætlun megi vera skiptimynt til sameiningarviðræðna eða til þess að létta álagi af umferðaræðum þar sem búast megi við aukinni umferð og álagi vegna ferðaþjónustu og atvinnulífs. Það er gott og gilt og sjálfsagt í allsnægtarsamfélagi þar sem íslenska ríkið á að fjárfesta í innviðum.
Hversu lengi ætlum við að hafa þetta „hangandi“ yfir okkur?
Hér er kostur sem hefur hangið inni á samgönguáætlun með hléum til nokkuð langs tíma. Gerð jarðganga milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar.
Ályktanir hafa verið lagðar fram á Alþingi um útbætur á þessum vegarkafla sem allir vita að er ekki skemmtilegur, hvorki að vetri til eða sumri. Jú, kannski spennandi, en í öðrum skilningi en vegna útsýnis þó það skorti ekkert upp á það. Spennan liggur í því hvort viðkomandi sem leggur leið sína komist eða verði fyrir líkams- eða eignatjóni við að sinna daglegu lífi.
Áhugavert er að skoða þetta vegstæði frá sjó þar sem sjást þær stærðir sem um ræðir, snarbrött hlíð og nokkur hundruð metra fallhæð af snjóhengjum úr fjallsbrún og niður á veg. Þar sést vel hversu útópískt er að ætla stálþili niður á vegbrún að ætla að stöðva snjóflóð sem koma ofan úr fjallsbrún fyrir ofan og úr þeim 22 farvegum sem merktir eru sem slíkir. Vegurinn er mjótt strik og vart greinanlegur neðst undir snarbrattri hlíð undir allt að 700 metra háu fjalli. Það ögrar öllum lögmálum að ætla að snjór geti setið þarna í makindum heilan vetur og sjatni svo í hægum leysingum vors og hverfi án ummerkja.
En svo kemur vor og sumar.
Íslensk vor og sumur eru ekki bara sól og sæla. Held að flestir ættu að vera farnir að þekkja það á sínu bleika skinni (jú, við höfum fleiri tóna, en bleiknefjar eru ennþá flestir hér), enda fátt sem minnir á sumar flesta daga sumarmánuða á dagatali. Það þýðir oftar en ekki hiti rétt ofan við frostmark, en þó því marki brennt að ná að leysa snjó úr læðingi og losa um frosthörkur vetrar sem leiðir til þess með sólarglætu að hreyfa við steinum og björgum. Og leið þeirra liggur þvert á Djúpveg á för þeirra niður í fjöru að búa þeim nýtt líf.
Grjóthrun á Súðavíkurhlíð og Kirkjubólshlíð er daglegt brauð þegar ekki nýtur við þess lúxus að hafa snjóbreiðu yfir til þess að dempa það. En það er skammvinn sæla þar sem hætta af snjóflóði er önnur og hraði og lögmál annað. Hraði áætlaður yfir 140 km/klst og hegðan ekki alltaf eins, eftir eðli snjómassa og hitastigs. Miðað við sjónsvið flestra þýðir það að viðbraðgstími leyfir ekki að unnt sé að forðast snjóflóð í akstri.
Hversu lengi ætlum við að hafa þetta „hangandi“ yfir okkur, bæði vegfarendum sem hér búa og sækja þjónustu og vinnu svo ekki sé talað um atvinnlífið sem sífellt sækir í sig veðrið í akstri með aðföng um Djúpveg?