Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verður með hefðbundið eftirlit um verslunarmannahelgina eins og jafnan áður. Áherslan í sumar hefur m.a. verið á eftirlit með hraðakstri, notkun farsíma við akstur án handfrjáls búnaðar, ferðavögnum/eftirvögnum og hættulegum framúrakstri. Það er ánægjulegt að sjaldnast hefur verið ástæða fyrir lögreglu til að kæra fyrir vanbúnað eftirvagna/ferðavagna, en í nokkrum tilvikum hefur ökumönnum verið bent á atriði sem þeir þurfa að laga, t.d. að framlengja hliðarspegla þegar ökutæki draga breiða eftirvagna.

Veðurspáin fyrir þessa verslunarmannahelgi er annars misgóð eftir landshlutum, en ferðalangar eru hvattir til að kynna sér veðurspár í þaula áður en lagt er af stað. Auk aksturs á löglegum hraða er líka nauðsynlegt að ökumenn og farþegar spenni beltin og að sjálfsögðu eiga allir ökumenn að vera allsgáðir. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hvetur alla vegfarendur til þess að sýna þolinmæði, sem er ómissandi í umferðinni, og gæta skal sérstakrar varúðar við framúrakstur. Með ósk um velfarnað í umferðinni.
Jafnframt þessu verður haldið úti eftirliti í hverfum í umdæminu og því vill lögreglan ítreka að fólk láti vita um grunsamlegar mannaferðir (taki ljósmyndir ef slíkt er mögulegt) og að það skrifi líka hjá sér, t.d. bílnúmer eða jafnvel lýsingar á fólki, ef eitthvað óvenjulegt á sér stað í nánasta umhverfi þess. Innbrotsþjófar fylgjast gjarnan með húsum áður en þeir láta til skarar skríða, hringja jafnvel dyrabjöllunni og þykjast vera að spyrja eftir einhverjum, og því er mikilvægt að hafa þessi atriði í huga. Munið að það er betra að hringja einu sinni of oft í lögregluna með upplýsingar af þessu tagi en einu sinni of sjaldan.
Lögreglan vill ennfremur minna á mikilvægi þess að fólk gangi tryggilega frá heimilum sínum, t.d. að loka gluggum, þegar það fer að heiman og ekki er úr vegi að tilkynna nágrönnum um slíkt, en nágrannavarsla getur skipt sköpum þegar kemur að því að upplýsa innbrot eða koma í veg fyrir þau. Sérstaklega er minnt á að útiljós séu kveikt þar sem þau eru til staðar, hvort sem um ræðir bakatil við hús eða að framanverðu. Slíkt einfaldar nágrönnum að sjá umferð/mannaferðir við húsin. Sömuleiðis er mikilvægt að fólk upplýsi ekki um fjarveru sína fyrir allra augum þegar farið er í frí, t.d. með tilkynningu á samfélagsmiðlum. Lögreglan verður með hefðbundið eftirlit um verslunarmannahelgina, en áhersla verður lögð á að fylgjast með íbúðarhúsnæði eins og kostur er.
Upplýsingum má koma á framfæri í síma 444 1000 eða í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu vegna yfirstandandi innbrots skal undantekningarlaust hringja í 112.
Að síðustu er minnt á reglur vegna Covid-19, sem gilda til og með 13. ágúst, og er fólk beðið um að fylgja þeim í einu og öllu, ekki síst er varðar almennar fjöldatakmarkanir, grímuskyldu og nándarmörk.
Umræða