þjóðarskúta til styrktar innviðum þjóðfélagsins
Við Íslendingar þurfum aðeins að gera út eina togaraútgerð sem væri með t.d. starfstöðvar í öllum fjórðungum landsins. Þetta þyrftu að vera öflug skip sem myndu stunda ísfiskveiðar og allur afli kæmi á fiskmarkaði um allt land. Þannig væri næg atvinna í öllum landsfjórðungum og þjóðin fengi öll að njóta kvótans en ekki bara örfáar fjölskyldur þar sem kvótinn hefur safnast á stórútgerðina með aðstoð ríkisstjórnarinnar.
Með þessu fyrirkomulagi fengi þjóðin hæsta verð fyrir auðlind sína, með því að sleppa þessum millilið sem í daglegu tali er nefnd stórútgerð og telur um 10-15 fjölskyldur / fyrirtæki. Milliliðalaus viðskipti og allur fiskur á markað, fiskmarkaðurinn gerir svo upp við ríkið og ríkið greiðir laun og kostnað. Þá þarf ekkert að vera að rífast um auðlindagjald sem stendur hvort sem er ekki undir þeim kostnaði sem ríkið stendur undir fyrir hinn ríkisstyrkta sjávarútveg á Íslandi.
Rekstrarlega séð er alltaf best að sleppa milliliðum sem hirða allan gróðan, það er engin undantekning þó þetta séu stór útgerðarfélög sem soga til sín hagnað oft á tíðum með vafasömum hætti ef marka má fjölmargar greinar þar um. Það er ekki eðlilegt að veiðar og vinnsla sé á sömu hendi, bara alls ekki og það á að uppræta þannig rekstur. Hreinlega brjóta upp slíkan rekstur sem útilokar alla samkeppni. Það eru m.a.s. til mörg dæmi um að sá sem veiðir kvótann er allstaðar í virðiskeðjunni hvort sem fiskurinn endi á veitingahúsi erlendis eða í verslun. Hvað fá Íslendingar fyrir fisk sem er braskað með í öðrum löndum? Ekkert, ekkert!
Til hvers að vera að ríkisstyrkja þessa aðila? Hví ekki bara að taka þennan rekstur yfir og deila ágóðanum til allrar þjóðarinnar og til að byggja upp innviði sem hafa grotnað í mél síðan kvótakerfið var einkavinavætt. Við getum ekki einu sinni rekið bráðamóttöku síðan að gróðinn var einkavinavæddur til þessara fjölskyldna. Halló, já ég sagði bráðamóttöku árið 2022 allt kerfið okkar er í klessu eftir arðránið s.l. 38 ár.
Tekjurnar af kvótanum færi í að byggja upp sjúkrahús, og heilsugæsluna í landinu auk allra þeirra innviða sem hafa grotnað niður vegna þess að við erum ekki fá krónu í auðlindatekjur (sem eru hlægilega lág veiðigjöld) miðað við þau rekstrargjöld sem er vegna sjávarútvegsins, eins og hefur verið margsinnis sannað.
Hví erum við að svelta fólk á Íslandi, öryrkja, barnafjölskyldur, eldri borgara og fleiri? Til þess að örfáir aðilar græði milljarða á okkar kostnað? Okkar sem eigum kvótann og þau verðmæti sem í honum eru. Væri ekki betra að vita af því að peningarnir færu í rekstur samfélagsins í stað þess að þeir lendi jafnvel á leynireikningum hinna ofurríku í skattaskjólum? Er þessum millilið treystandi fyrir eign þjóðarinnar? Er okkur skilað því sem okkur ber í sameiginlega sjóði?
Þetta er píramídi sem ætti að vera á hvolfi, því það eru bara nokkrar hræður á toppnum sem lifa í alsnægtum og rúmlega það, eru ofurríkir á meðan allur fjöldinn fær ekkert af kökunni, ekkert! Það er vitlaust gefið og það er vitlaust gefið vegna þess að við erum svo vitlaus að afhenda röngum flokkum völd áratugum saman, já, áratugum saman. Það þarf að passa upp á að enginn af þessum kvótaflokkum komist aftur á Alþingi, þetta er sjálftöku- og eiginhagsmunalið allt saman. Sér um sig og sína og skítt með allt hitt, þegar búið er að ljúga út atkvæðin með fagurgala og lygi. Aldrei, aldrei, aldrei að gefa aftur frá ykkur öll völd til siðblindingja og eiginhagsumafólks. Það er það sem við eigum að læra af kvótakerfinu og út á hvað það gengur.
https://gamli.frettatiminn.is/03/12/2021/fiskistofa-enginn-fai-meira-en-15-af-kvota-til-afnota-a-ari/