Fréttatíminn lagði fram nokkrar spurningar til Fiskistofu sem Ögmundur Haukur Knútsson, Fiskistofustjóri svaraði, varðandi kvótaþak sem stórútgerðin þarf að vera undir samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða.
Góðan dag Ögmundur, í febrúar s.l. fyrir hálfu ári síðan, birti Fiskistofa neðangreinda frétt:
Matvælaráðherra hefur óskað eftir að Fiskistofa efli eftirlit með samþjöppun aflaheimilda. Fiskistofa mun bregðast við tilmælum ráðherra með þeim úrræðum sem stofnunin býr yfir. Eftirlit með samþjöppun aflaheimilda er vandasamt einkum vegna óskýrra lagaákvæða og ófullnægjandi aðgangs að rauntíma upplýsingum um eignarhald og tengsl. Fjallað var m.a. um þessa annmarka í Skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu (desember 2018), og voru m.a. lagðar til lagabreytingar í skýrslu Verkefnastjórnar um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni (júní 2020). Þar sem lagabreytingar hafa ekki náð fram að ganga mun Fiskistofa horfa til samstarfs við aðrar ríkistofnanir til að stuðla að bættu eftirlit með samþjöppun aflaheimilda. Fiskistofa birtir tvisvar á ári upplýsingar um samanlagða aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, sjá t.d. frétt á vefsíðu Fiskistofu, dags. 2.11.2021.
Fyrirspurn Fréttatímans vegna kvótaþaks ofl.
- Núna hálfu ári síðar, óskast upplýst hver niðurstaða eftirlitsins er?
- Hversu mörg útgerðarfélög eru yfir kvótaþaki?
- Hvaða útgerðarfélög eru það og hver er staða þeirra útfrá kvótaþakinu?
- Hví er svo frjálsleg túlkun á ,,tengdum aðilum“ umfram það sem gerist í öðrum atvinnugreinum, þarf að herða þá skilgreiningu?
- Ef ekki væri sú rúma skilgreining sem hefur verið sésmíðuð fyrir stórútgerðina, hvernig liti staðan raunverulega út um kvótastöðu hæstu 10 fyrirtækjanna, hver er raunveruleg hlutdeild þeirra?
- Hvað hefur Fiskistofa gert gagnvart þeim sem hafa farið yfir kvótaþakið? Hver eru viðurlögin og afleiðingarnar?
- Kristján Júlíusson vissi að Samherji var kominn yfir kvótaþakið en lét það viðgangast. Voru það eðlileg stjórnsýsluleg vinnubrögð?
- Hvaða lagaheimildir hefur Fiskistofa til þess að beita viðurlögum?
- Má Fiskistofa svipta útgerða aflahlutdeild, fari hún yfir kvótaþakið?
- Hver er skoðun forstjóra Fiskistofu á þeim úrræðum sem Fiskistofa hefur?
- Hefur stofnunin nægilegar valdaheimildir?
- Telur Fiskistofa að lagabreytinga sé þörf vegna kvótaþaks og/eða annara mála?
Svar Fiskistofustjóra
Í greinagerðinni hér á eftir og meðfylgjandi fylgiskjölum er leitast við að svara fyrirspurnum þínum. Til hægðarauka númeraði ég spurningar þínar og merkti svo við hvar þeim er svarað.
Reglur um hámarskaflahlutdeild er að finna í 13. og 14. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Reglurnar mæla fyrir um að samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstaklinga, lögaðila og tengdar aðila megi ekki fara upp fyrir lögbundið hámark á aflahlutdeilda. Fari þeir yfir hámarksaflahlutdeild er þeim gefið svigrúm í 6 mánuði til að að gera ráðstafanir til að koma aflahlutdeildinni niður fyrir mörkin. Sé það ekki gert þá kveða lögin á um að aflahlutdeildirnar sem eru umfram hámarksaflahlutdeildir falli niður. Þannig eru í raun ekki viðurlög við því að fara yfir hámarkið, heldur er aðilum gefinn tiltekinn tími til að koma sér undir lögbundið hámark. Fiskistofa hefur aldrei þurft að grípa til þess úrræðis þar sem aðilar hafa ávallt brugðist við þegar þeim er send tilkynning þess efnis að aðilar séu yfir lögbundnu hámarki (liður 6, 8 og 9).
Fiskistofa lítur svo á að undir lið 6 sé óskað upplýsinga um viðbrögð Fiskistofu þegar farið er yfir hámark aflahlutdeildar. Meðfylgjandi eru þrjár tilkynningar sem Fiskistofa hefur sent 1 ár aftur í tímann vegna þessa. Fiskistofa mun senda ykkur eina tilkynningu í næstu viku. Upplýsingarnar eru afhentar með vísan til 5. gr. upplýsingalaga (1, 2 og 6).
Fiskistofa hefur bent á erfiðleika við eftirlit með hámarksaflahlutdeild. Er hér m.a. vísað til umsagnar sem Fiskistofa sendi inn í tilefni af frumvarps sem lagt var fram á síðasta þingi, sjá hér;151-2745.pdf (althingi.is), þar er meðal annars vísað til þess að aðgengi að rauntíma upplýsingum sé ábótavant og að Fiskistofa telji það til bóta að skilgreining á tengdum aðilum sé í samræmi við skilgreiningu á tengdum aðilum í samkeppnisrétti. Þessar breytingar náðu ekki fram að ganga og Fiskistofa er enn á þeirri skoðun að breytingar í þá átt væru til bóta. (liðir 10, 11 og 12).
Varðandi lið 4. og 5. er bent á greinagerð við frumvarp er varð að lögum nr. 27/1998 sjá hér. Í greinagerðinni kemur fram hvaða rök lágu að baki lagasetningunni. Breyting á lögum er í höndum Alþingis og frá þeim hafa verið lögð fram ýmis frumvörp sem ætlað var að breyta reglum um hámarks aflahlutdeild en náðu ekki fram að ganga. Má því ætla að það hafi ekki verið nægur pólitískur vilji til að breyta reglunum, a.m.k. ekki á þann hátt sem lagt hefur verið fyrir Alþingi. Ómögulegt er að segja til um hvernig staðan væri ef reglurnar væru með þeim hætti að aðilar sem ekki teljast tengdir aðilar samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða yrðu taldir tengdir (liðir 4. og 5.).
Varðandi þá fullyrðingu sem kemur fram undir lið 7. þá er okkur ekki kunnugt um þetta en bendum jafnframt á að það er Fiskistofa sem hefur eftirlit með hámarksaflahlutdeild en ekki ráðherra og er það því Fiskistofa sem á að bregðast við í slíkum tilfellum (liður 7).