Fréttatilkynning – Jólarjúpan 2020 – Hvað getum við gert?
Veiðistofn rjúpu metinn sá minnsti frá því mælingar hófust
Niðurstöður rjúpnatalninga vorið 2020 sýndu í sjálfu sér ekkert óvænt, sums staðar er stofninn í eða nærri hámarki, annars staðar í lágmarki og enn annars staðar einhverstaðar þar á milli. Það sem er óvænt í stöðunni 2020 er viðkomubrestur sem spannar að öllum líkindum allt land frá Strandasýslu í vestri til Norður-Þingeyjarsýslu í austri, þetta eru meginuppeldisstöðvar rjúpu á Íslandi. Í samræmi við það er veiðistofn rjúpu metinn einn sá minnsti síðan mælingar hófust 1995.
Sjá nánar: Vefur Náttúrufræðistofnunar Íslands: frétt Veiðiþol rjúpnastofnsins 2020 og greinargerð: Mat á veiðiþoli rjúpnastofnsins 2020
Ábyrgð neytenda
Hvað getum við gert? Við neytendur berum mikla ábyrgð á því að lágmarka eftirspurn þegar staðan er þessi. Vert að minna á sölubann í fullu gildi skv. reglugerð 800/2005 sem eru breytingar á reglugerð 456/1994 og eiga þær sér stoð í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994.
Því er: “ Óheimilt er að flytja út, bjóða til sölu eða selja rjúpur og rjúpnaafurðir. Með sölu er átt við hvers konar afhendingu gegn endurgjaldi.” Ábyrgir neytendur hugsa sig líka tvisvar um áður en þeir þiggja rjúpu eða rjúpnaafurðir að gjöf eða taka þátt í neyslu rjúpnaafurða þar sem þær verða í boði. Það eru fjölmargar aðrar vörur í boði, ekki hvað síst með auknum vinsældum jurtaafurða. Er því ekki tilvalið að gefa jólarjúpunni í ár jólafrí?
Ábyrgð veiðimanna
Hvað geta veiðimenn gert? Fuglavernd hvetur alla skotveiðimenn til að sýna hófsemi við veiðar í rjúpu í ár, sem fyrri ár, svo stuðla megi að sjálfbærni rjúpnaveiða. Á vef Umhverfis- og auðlindaráðuneytis kemur fram að líkt og undanfarin ár er veiðiverndarsvæði á SV landi. Sjá einnig: Kort af veiðiverndarsvæði rjúpu suðvestanlands. Þessu til viðbótar árið 2020 eru veiðimenn einnig hvattir til að fylgja sóttvarnarreglum og tilmælum sem í gildi eru á hverjum tíma sem og tilmælum lögregluyfirvalda eða aðgerðastjórna almannavarnanefnda einstakra landshluta.
Mynd: Rjúpa. Ljósmyndari: © Daníel Bergmann