Jarðskjálftinn fannst víða á höfuðborgarsvæðinu
Jarðskjálfti fannst víða á suðvesturhorninu klukkan 12:19. Hann var 4,5 að stærð, samkvæmt yfirförnum mælingum Veðurstofu Íslands. Upptök skjálftans voru austur af Sýlingarfelli, við Sundhnúkagígaröðina. Það er um 5,8 kílómetra vestsuðvestur af Fagradalsfjalli.
Yfir 10.000 jarðskjálftar
Yfir 10.000 jarðskjálftar hafa mælst í jarðskjálftahrinu sem hófst 25. október norðan við Grindavík. Alls hafa 20 skjálftar mælst yfir 3 að stærð, þar af þrír yfir 4 að stærð, sá stærsti mældist 4.5 að stærð kl. 8:18 þann 25/10. Skjálftavirknin er talin vera afleiðing spennubreytinga vegna aflögunar á Reykjanesskaga
Gögn úr Sentinel gervitungli hafa ekki borist ennþá, en samfelldar GPS mælingar sýna áframhaldandi merki um landris. Hraði þenslunnar hefur þó minnkað örlítið miðað við í upphafi. Fyrstu niðurstöður líkanreikninga benda til að kvika sé að safnast fyrir á um 4 km dýpi.
Síðasta sólahringinn hafa mælst um 1300 jarðskjálftar á Reykjanesskaga. Meirihluti skjálftavirkninnar er á um 2-4 km dýpi. Stærsti skjálfti síðasta sólarhring var M2,7 að stærð kl. 11:40 í gær, 29. Október.
Vísindamenn Veðurstofunnar munu fara á svæðið nærri Svartsengi og Þorbirni í dag til að framkvæma gasmælingar. Regluleg samskipti eru á milli Veðurstofunnar, HS-Orku og Almannavarna á meðan þessari virkni stendur.
Nýjustu gögn frá GPS mælaneti Veðurstofunnar umhverfis Þorbjörn og Svartsengi, staðfesta að landris sem hófst 27. oktober heldur áfram. Eins og kom fram er þenslan hraðari en í fyrri atburðum á svipuðu svæði 2020 og 2022. Rétt er að vara við því að á meðan að landrisi stendur yfir, getur jarðskjálftavirkni tekið sig upp aftur, með jarðskjálftum sem fólk finnur vel fyrir.