Ef öllum er ekki löngu orðið ljóst hversu vanhæfur Seðlabankastjóri og varamaður hans eru þá hvet ég fólk til að lesa færslur Marinó G. Njálssonar um fund Ásgeirs Jónssonar, seðlabankastjóra og Rannveigar Sigurðardóttur, varaseðlabankastjóra, með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Þó þessi samantektir Marinós séu alls ekki tæmandi um bullið í þessu fólki þá er mikilvægt að almenningur fari að átta sig á því hversu miklum skaða þetta fólk er að valda heimilum landsins og hagkerfinu.
Þannig er að opinberast betur og betur hvernig seðlabankinn ætlar að fórna skuldsettum heimilum og éta upp eigið fé þeirra með vaxtastefnu sinni.
Seðlabankastjóri hefur engar áhyggjur af fólkinu í landinu sem hann telur að hafi grætt of mikið á neikvæðum vöxtum til skamms tíma. Þau telja mikilvægast að bæta meint tap sparifjáreigenda, hvað sem það kostar, og sjá fyrir sér mikil tækifæri í bættri eiginfjárstöðu heimilanna í þeim efnum.
Með öðrum orðum erum við að ganga inn í sambærilega atburðarrás og í eftirmálum hrunsins 2008 þegar tugþúsundir heimila fóru í þrot.
Það þarf að stoppa þetta fólk með ölllum tiltækum ráðum ef ekki á illa að fara.
Stóra tilfærslan í boði seðlabankans. Þessu botnlausa dekri við fjármálakerfið og fjármagnseigendur verður að linna.
Hreinar vaxtatekjur stóru bankanna þriggja jukust um 20% á milli ára og hafa aukist um 46% frá árinu 2021 þegar hreinar vaxtatekjur þeirra voru 77,2 milljarðar frá jan-sept. En eru nú 112,9 milljarðar.
Samanlagðar hreinar vaxtatekjur bankanna þriggja fyrstu 9 mánuði, síðustu þriggja ára nema þannig um 284,3 milljörðum.
Ekki nóg með að nýjustu mælingar á verðbólgu sýna að hún er keyrð áfram af stýrivaxtahækkunum seðlabankans, má glöggt sjá hvernig víxlverkun hækkandi vaxta og verðlags er að keyra áfram verðbólgu í stað þess að vinna hana niður.
Allt í nafni þess að verja fjármagnið því lántakar hafa grætt svo mikið. Grætt svo mikið á að hafa greitt neikvæða vexti til skamms tíma á 25 til 40 ára lánstíma. Grætt svo mikið þrátt fyrir að raunstýrivextir í samanburðarlöndum og víðar hafi verið neikvæðir í áratug eða meira.
Nú ætlar seðlabankastjóri að bretta upp ermarnar enn betur og vinna upp meint tap sparifjáreigenda með stórkostlegri eigna og tekjutilfærslu frá skuldsettum heimilum. Það er því miður að raungerst sem ég og fleiri höfum ítrekað varað við síðustu ár. Versta sviðsmyndin sem við teiknuðum upp er að raungerast.
Við hljótum að krefjast afsagnar seðlabankastjóra og peningastefnunefndar þegar í stað.
Það mætti deila þessum stutta pistli sértu því sammála.
Fundur Ásgeirs Jónssonar, seðlabankastjóra, og Rannveigar Sigurðardóttur, varaseðlabankastjóra peningastefnu, með efnahags- og viðskiptanefnd í morgun um skýrslu peningastefnunefndar Seðlabankans var eiginlega tímaferðalag til þeirra ára þegar Már Guðmundsson var seðlabankastjóri. Engum erfiðum spurningum svarað beint og reynt eins og hægt var að rugla fólk í ríminu. Óhætt er þó að segja, að hvorki Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, né Ásta Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, létu þau komast upp með stórfurðuleg svör sín.
Áður en ég fer í mína greiningu og yfirferð, þá ætla ég að gefa þeim orðið í minni samantekt og umorðun.
Björn Leví (var heitt í hamsi): Aukið eigið fé er ekki peningur í hendi. Fólk þarf einhvers staðar að búa. Óþægilegt þegar svarað er, eins og fólk sé bara í góðum málum, ef það á aukið eigið fé. Svör SÍ eru, að bankinn hefur ekki hugmynd. Skoðanakannanir veita betri upplýsingar, en Seðlabankinn.
Ásta Lóa (henni var ekki einu sinni svarað): Hvert heldur seðlabankastjóri að fyrirtæki velti aukinni vaxtabyrði? Það að lengja í lánum lækkar ekki greiðslubyrði. Engar lausnir nema fyrir þá sem ekki þurfa þeirra. Góð eiginfjárstaða heimilanna er bara til á pappír. Greiðslugeta snýst um ráðstöfunarfé og geti ekki heimilin greitt af lánunum, þá er eigið féð farið fyrir lítið. Tilgangurinn með vaxtahækkunum er sagður að hægja á byggingageiranum. Er SÍ ekki ljóst að íbúðir skortir.
Skiptir mestu máli fyrir heimilin að standa undir húsnæðiskostnaði sínum, því annars fer illa fyrir þeim.
Ég gæti bara hætt hér, því þau tvö tóku vel saman skilningsleysi seðlabankafólksins. En ágæti lesandi, þú sleppur ekki svo vel
Seðlabankastjórarnir, og þá sérstaklega Ásgeir, lögðu mikið á sig að ræða um aukaatriði eða snúa hlutunum á hvolft. Ætla ég að skoða hér eitt og annað úr svörum þeirra:
- – eiginfjárstaða heimilanna: hún skiptir engu máli, þar sem fólk getur ekki selt og stenst ekki greiðslumat vegna frekari skuldsetningar. Frekar að hún freisti bankanna til að komast yfir húsnæðið ódýrt og hagnast vel. Þannig var það ansi oft á árunum eftir hrun.
- – skuldastaða heimilanna góð miðað við ráðstöfunartekjur: eins og eftir hrun, þá er verið að ræða skuldastöðu, sem skiptir engu máli. Núverandi ástand er ekki skuldavandi, heldur greiðslurvandi.
- – meintur gróði þeirra sem eru með fasta nafnvexti á lánunum: þetta er ekki gróði í nokkrum skilningi, því hvort lánið mun reynast hagkvæmt eða ekki, kemur fyrst í ljós þegar það er greitt upp.
- – að launþegar í Evrópu hefðu ekki haldið kaupmætti í launahækkunum sínum: stenst enga skoðun. Víða á Norðurlöndum eru laun verðtryggð.
- – nóg er að eignum í sölu (4500 íbúðir) og nóg í pípunum, en segja svo að verið sé að draga úr framkvæmdum: það skiptir engu máli hve mikið er að eignum í sölu, fjöldi þeirra sem stenst greiðslumat er mjög lítill.
- – húsnæðismarkaðurinn er mettaður: nei, húsnæðismarkaðurinn er ekki mettaður. Stórir hópar bíða eftir að vextir lækki og/eða slakað verði á lánþegaskilyrðum. Það vantar líklega um 10.000 íbúðir á landsvísu. Enda lýsti Rannveig því yfir, að nauðsynlegt væri að húsnæðismarkaðurinn væri kaupendamarkaður, þ.e. hver kaupandi hefði úr mörgum íbúðum að velja án teljandi samkeppni.
- – hagvöxtur er mikill: Sé haft í huga að fólksfjölgun í ár er með því mesta sem verið hefur, þá er mjög eðlilegt að hagvöxtur sé mikill. Hann er hins vegar lítill, þegar tekið er tillit til fólksfjölgunarinnar.
- – Ásgeir sagði að ekki ætti að hækka nafnlaun: skil ekki alveg hvað hann átti við. Gerði það nokkrum sinnum að ruglast á hugtökum. Séu nafnlaun ekki hækkuð, þá er engin launahækkun!
- – atvinnuleysi er lítið: núna mun vera 3,9% atvinnuleysi. Einhvern tímann þótti það mikið atvinnuleysi, en allt í einu telst það lítið atvinnuleysi.
- – ekki þörf á að draga úr útlánagetu bankanna: það er einmitt það sem á að gera. Ný útlán fela almennt í sér prentun peninga, sem síðan leiðir til hærri verðbólgu.
- – segjast ekki hafa upplýsingar um greiðslubyrði tekjutíunda en greiðslubyrðin hefur hækkað mest hjá þeim tekjuhæstu: merkileg mótsögn svo ekki sé meira sagt.
- – telja að launahækkanir valdi verðbólgu: í kjarasamningunum frá desember fram á vor, var verið að bregðast við mikilli verðbólgu sem var að baki.
- Seðlabankastjóri vildi ekki svara tölum um að kostnaður Krónunnar vegna hækkunar launa og starfsmannakostnaðar hafi verið 1,25%, en þrátt fyrir það hækkaði matarliðurinn í vísitölu neysluverðs um 9,1%. Það getur vel verið að launahækkanir valdi einhverri verðbólgu, en 10% hækkun launa veldur líklegast innan við 2% hækkun verðbólgu.
- – allir seðlabankar í Evrópu hafa áhyggjur af greiðsluþroti og greiðsluþurrð heimilanna: hefur Seðlabanki Íslands ekki áhyggjur af þessu? Hann ætti að hafa það.
- – getum ekki byggt íbúðir á fullu, tekið á móti milljónum ferðamanna og staðið í opinberum framkvæmdum, allt á sama tíma: jú, við getum það alveg og verðum að geta það. Þannig virka hagkerfi. Margt er í gangi í einu. Ráði seðlabankastjórarnir ekki við krefjandi verkefni, þá er kannski að fá aðra í starfið.
- – bændur eru ekki launþegar: þetta var eiginlega það fáránlegasta sem kom frá seðlabankastjóra. Bændur eru víst launþegar og býlið þeirra greiðir þeim laun. Það heitir á skattamáli reiknað endurgjald.
- – ungt fólk sem keypti sína fyrstu íbúð sumarið 2020 er að græða á hækkun fasteignaverðs og hefur engan rétt á að kvarta: unga fólkið er í greiðsluvanda.
- Greiðsluvandi kemur verði fasteigna eða góðu veðrými ekkert við. Þetta var líklega aumasta svar seðlabankastjóra á fundinum. Afneitunin var alveg og réttlætingin í botni.
- Mörg af þeim svörum sem seðlabankafólkið gaf voru í anda Más Guðmundssonar. Óskiljanleg, flóttaleg og furðulegar hrútskýringar. Ég sé hins vegar að sumir fjölmiðlamenn halda ekki vatni yfir því hvernig Ásgeir jarðaði þingmennina.
- Ekki skal skilið sem svo, að allt hafi verið furðulegt í svörum seðlabankastjóranna, en einfaldlega allt of mikið, eins og það skorti alvöru skilning á einföldum atriðum. Síðan er það dónaskapur að svara ekki Ástu Lóu í seinni umferðinni.
- Að lokum. Ég skil ekki, þegar tveimur af æðstu embættismönnum landsins finnst bara í góðu lagi að sletta erlendum orðum á fundi með nefnd Alþingis. Mér finnst það ekki viðeigandi.