Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stóð fyrir svokölluðum aðgerðadögum í síðustu viku, en að þeim loknum höfðu um fimmtíu manns fengið stöðu sakbornings vegna ýmissa mála.
Um er að ræða meint brot sem snúa m.a. að vörslu og meðferð ávana- og fíkniefna, þjófnuðum, skjalafalsi, hilmingu, peningaþvætti, vopnalögum og lögum um útlendinga. Á meðal þess sem var haldlagt voru nokkrir tugir kílóa af kannabis, auk fjölda kannabisplantna sem lögreglan tók í sína vörslu þegar kannabisræktanir voru stöðvaðar í umdæminu. Lögreglumenn á öllum lögreglustöðvum embættisins tóku þátt í aðgerðadögunum og höfðu afskipti af fólki á ýmsum stöðum á höfuðborgarsvæðinu vegna fyrrnefndra mála.
Þess má geta að á sama tíma var einnig ráðist í samskonar aðgerðir í öðrum löndum Evrópu, en lögregluaðgerðirnar bæði ytra og á höfuðborgarsvæðinu voru haldnar að tilstuðlan Europol. Slíkir aðgerðadagar eru vel þekktir hjá Europol og hefur íslenska lögreglan áður tekið þátt í þeim.
Við minnum á upplýsingasíma lögreglu 800 5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um skipulagða brotastarfsemi, eða önnur brot sem fólk hefur vitneskju um.
Discussion about this post