Vinsælasta fréttin í janúar 2019
Rætt var um Samfélagsbanka í Silfrinu á RÚV en Frosti Sigurjónsson hefur verið ötull talsmaður þess að breyta Landsbankanum í Samfélagsbanka og hefur bent á hversu auðvelt það sé og hagsælt fyrir þjóðina að eiga slíkan banka. Hagfræðingur SA talar eindregið fyrir einkavæðingu bankanna og vill ekki heyra minnst á Samfélagsbanka.
Miðað við hvað sjálfstæðismenn og hagfræðingur Samtaka Atvinnulífsins eru svartsýnir á að geta einkavætt bankann nema með ríflega 20% afslætti eða 100 milljarða meðgjöf, þá lítur hugmyndin um Samfélagsbanka enn betur út að mati Frosta og mundi leysa þann mikla vanda sem að bent er á varðandi sölu og einkavæðingu bankans og er trygging fyrir að sömu mistök verði ekki gerð aftur. Þá þyrfti ekki heldur að gefa 100 milljarða til kaupenda, þeir mundu nýtast vel í Samfélagsbönkum sem að væru um allt land og mundu styrkja m.a. landsbyggðina.
Þjóðin man vel eftir þeim hörmungum sem að síðasta einkavæðing var og hafa verið skrifaðar um hana ítarlegar rannsóknarskýrslur, þar kom m.a. fram að gæðingur framsóknarflokksins á að hafa eignast annan bankann ásamt öðrum og dularfullar millifærslur upp á milljarða sendar til huldufélaga á aflandseyju og málið leit allt mjög illa út. Sömu flokkar, sjálfstæðis- og framsóknarflokkur eru nú búnir að setja það í stjórnarsáttmálann að selja bankana aftur. Þá var Arion banki einkavæddur fyrir áramót.
,,Viðhorfskönnun sýnir að 62% landsmanna vilja að ríkið eigi bankana en aðeins 14% landsmanna vilja selja. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra virðist búinn að gleyma því hvernig síðasta einkavæðing fór og vill selja. Vissulega er slæmt að ríkið þurfi að standa í bankarekstri en við vitum af biturri reynslu að einkarekstur banka er stórhættulegur ríkinu. Bankarnir eru stórir og samkeppni er lítil á milli þeirra, þá er betra að ríkið eigi þá og stilli gróðasækni þeirra í hóf.
Eigum bankana áfram og breytum Íslandsbanka eða Landsbanka í samfélagsbanka að þýskri fyrirmynd. Höfum bankakerfið í eigu fólksins svo það þjóni fólkinu í landinu í stað þess að þjóna gróðasæknum eigendum.“ Segir Frosti Sigurjónsson um málið
Helga Þórðardóttir skrifaði grein á vefinn heimilisbankinn.is um Samfélagsbanka: ,,Almenningur er orðinn langþreyttur á vaxtaokri og spillingu í bankakerfinu. Borgunarmálið er bara eitt af mörgum slíkum málum sem almenningur hefur horft upp á undanfarin ár. Maður er farinn að finna ákveðið vonleysi hjá fólki um að hér muni ekkert breytast.
Fyrstu árin eftir hrun spruttu upp ýmsir áhugahópar um bætt samfélag og fannst mörgum þeirra að hrunið gæfi okkur ákveðið tækifæri til að endurskoða ónýt og gölluð kerfi. Því miður hefur enn ekki tekist að gera neinar grundvallarbreytingar á íslensku samfélagi. Umbótahugmyndir eru slegnar út af borðinu af valdaklíkunni sem auðvitað vill ekki missa spón úr aski sínum.
Samfélagsbanki er ein slík hugmynd sem valdaklíkan vill alls ekki heyra á minnst og notar alls kyns rökvillur til að afvegaleiða umræðuna um samfélagsbanka.
Grundvallarmunurinn á samfélagsbanka og einkabanka er hvert hagnaðurinn fer. Hjá einkabönkum fer hagnaðurinn til hluthafa. Þeir vilja oftast fá mikinn hagnað og það fljótt. Það er alls ekki víst að þeir búi í sama landi og bankinn starfar í. Þeir hafa því engin tengsl við samfélagið þar sem bankinn starfar. Þess vegna hefur nærsamfélagið lítil áhrif á ákvarðanir þeirra.
Samfélagsbanki er eign almennings og getur verið á vegum ríkisins eða sveitarfélaga. Markmið og starfsemi bankans eru skilgreind með sérstökum lögum. Í þeim lögum á að koma fram að markmið bankans sé að þjóna almenningi og hagsmunum hans. Hagnaðurinn fer til eigenda, þ.e. almennings. Þess vegna er hægt að nota hagnaðinn til að styðja ákveðin verkefni eða lækka skatta. Samfélagsbanki er viðskiptabanki en ekki fjárfestingabanki.
Þess vegna tekur hann ekki þátt í áhættusömum veðmálum spilavítis fjárfestingabankanna. Samfélagsbanki fjárfestir því í raunhagkerfinu, fyrirtækjum sem framleiða raunverulegar vörur en ekki bara gúmmítékka. Þess vegna eru mun minni líkur á því að hann fari í gjaldþrot.
Hægt væri að hugsa sér að íslenska ríkið breytti Landsbankanum og Íslandsbanka í einn samfélagsbanka. Hagnaðurinn rynni í ríkissjóð. Þetta stór banki á markaði gæti haft afgerandi áhrif á vaxtastig og þjónustugjöld annarra banka. Raunveruleikinn er sá að til eru samfélagsbankar víða um heim sem gengur vel að reka. Þess vegna ætti það líka að ganga á Íslandi. Til þess þarf almenningur að kynna sér samfélagsbanka og krefjast þess að þeir verði stofnaðir á Íslandi.
Ellen Brown, sem er lögfræðingur og höfundur bókar um samfélagsbanka, sagði sögu þeirra og eðli Samfélagsbanka á í febrúar 2016. Hún er frá Kaliforníu.
Hún hefur stofnað samtök til að stuðla að því að samfélagsbankar verði stofnaðir sem víðast. Hinn fyrirlesarinn sem kom, heitir Wolfram Morales og er frá Þýskalandi. Hann er framkvæmdastjóri í regnhlífasamtökum samfélagsbanka í Þýskalandi sem heita Sparkasse.
Samkvæmt OECD þá eru þýskir samfélagsbankar um 40% af þýskum bankamarkaði þegar talið er í fjármagnseignum. Auk þess eiga samfélagsbankar sér langa sögu í Þýskalandi og teljast því þar sem hefðbundið og eðlilegt fyrirbæri í bankarekstri.“