Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur birt uppfærða stefnu í lánamálum ríkisins 2021-2025. Stefnan er sett fram á grundvelli fjármálaáætlunar og inniheldur hún markmið og viðmið fyrir lánastýringu ríkisins á tímabilinu. Meginmarkmið stefnunnar er að tryggja að lánsfjárþörf og fjárhagslegum skuldbindingum ríkissjóðs sé mætt með lágmarkskostnaði að teknu tilliti til varfærinnar áhættustefnu.
Fjármálaáætlun fyrir árin 2021-2025 gerir ráð fyrir að lánsfjárþörf ríkissjóðs á tímabilinu verði um 1.000 ma.kr. Ríkissjóður hefur yfir að ráða fjölbreyttum möguleikum til að mæta þeirri fjárþörf, bæði innanlands og erlendis. Áfram verður megináhersla á að mæta fjármögnunarþörf ríkissjóðs með útgáfu ríkisbréfa á innlendum skuldabréfamarkaði. Aukin áhersla verður á erlenda lánsfjármögnun. Lausafjárstýring ríkissjóðs og ÍL-sjóðs verður óbreytt á fyrri hluta tímabils fjármálaáætlunarinnar og fyrirhuguð sala á hluta af eignarhlut ríkissjóðs í Íslandsbanka dregur úr lántökuþörf á næstu misserum. Sjóðsstaða ríkissjóðs er góð um þessar mundir þar sem innstæður í íslenskum krónum í Seðlabanka nema nú um 145 ma.kr. Því til viðbótar á ríkissjóður um 220 ma.kr. í erlendum innstæðum í kjölfar skuldabréfaútgáfu í erlendum gjaldmiðlum.
Stefna í lánamálum lýsir áformum stjórnvalda um framkvæmd lánsfjármögnunar á tímabilinu. Í stefnunni er lýst markmiðum við lánastýringu, viðmiðum við stýringu lánamála, samsetningu lánasafns ríkissjóðs, helstu áhættuþáttum við lánastýringu og áhættuskuldbindingum ríkissjóðs. Þá er lýst skipulagi við framkvæmd lánamála og hvernig upplýsingagjöf til markaðsaðila og fjárfesta er háttað.
Stefnan sem nú er sett fram, byggir að meginhluta til á fyrri stefnu en með nokkrum áherslubreytingum til samræmis við fjármálaáætlun. Helstu breytingar eru eftirfarandi:
- Í ljósi versnandi afkomu ríkissjóðs eykst lánsfjárþörf verulega á næstu árum. Áfram verður tryggð verðmyndun með 2, 5 og 10 ára markflokka, en markmið um hámarksfjárhæð útistandandi flokka verður afnumið.
- Erlend lán hafa hingað til fyrst og fremst verið tekin til að fjármagna gjaldeyrisforða. Í ljósi mikillar fjárþarfar á tímabili fjármálaáætlunar, verður henni að hluta mætt með erlendri lántöku eða með því að nýta gjaldeyriseign ríkissjóðs í Seðlabanka.
- Viðmið fyrir samsetningu lánasafns ríkissjóðs í heild verður breytt þannig að hlutfall erlendra lána eykst í 15-25% af lánasafni, hlutur óverðtryggðra lána verður 50-70% af lánasafni og hlutur verðtryggðra lána 20-30% af lánasafni.
- Áfram verður unnið með sameiginlega lausafjárstýring ríkissjóðs og ÍL-sjóðs með það að markmiði að hámarka ávinning fyrir ríkissjóð í heild.
- Skýrt skilgreind græn og sjálfbær verkefni hér á landi kunna að verða fjármögnuð með útgáfu svokallaðra grænna (sjálfbærra) ríkisskuldabréfa. Verkefnahópur á vegum fjármála- og efnahagsráðherra vinnur nú að greiningu á fýsileika slíkrar útgáfu.
Megin stefnumið fjármálaáætlunarinnar er að stöðva skuldasöfnun sem hlutfall af VLF fyrir lok áætlunartímabilsins. Þrátt fyrir mikla hækkun skulda verður skuldastaða ríkissjóðs hófleg í alþjóðlegum samanburði og hagstætt vaxtaumhverfi gerir það að verkum að vaxtagjöld ríkissjóðs aukast ekki í sama hlutfalli og skuldir. Sú áskorun sem felst í fjármögnun ríkissjóðs á tímabilinu er vel viðráðanleg enda hefur ríkissjóður fjölbreytta mögulega til að mæta fjárþörf og hófleg skuldastaða, gott lánshæfi, sterk vaxtargeta hagkerfisins og aukinn trúverðugleiki hagstjórnarinnar á síðustu árum, styður við fjármögnunargetu ríkissjóðs.