Dómsmálaráðherra lagði til á ríkisstjórnarfundi föstudaginn 29. desember að ráðist yrði í fyrsta áfanga varnargarða við Grindavík sem fyrst. Fyrsti áfanginn er sá hluti af varnargörðunum sem Almannavarnir telja mikilvægastan.
Áætlaður kostnaður við fyrsta áfanga er hálfur milljarður króna, en heildarkostnaður við varnargarðana við Grindavík verður umtalsvert hærri. Algjör samstaða var í ríkisstjórn um tillöguna. Tillaga ráðherrans byggir á minnisblaði frá ríkislögreglustjóra um varnargarðinn. Þar kemur fram að með hliðsjón af vernd íbúa og verðmætum byggðar og innviða Grindavíkur, með vísan til laga um almannavarnir og laga um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga, leggur ríkislögreglustjóri til að ráðist verði sem fyrst í byggingu varnargarðs til varnar Grindavík.
Lagt er til að í fyrstu lotu verði einungis byggður helmingur af hæð efsta hluta garðsins og staðan þá endurmetin, m.a. með hliðsjón af stöðu og þróun jarðhræringa. Hæð varnargarðsins er mismunandi eftir staðsetningu í landinu og þróun jarðhræringa en garðurinn verður almennt um 6 -10 m.
Forsendur fyrir byggingu varnargarðsins
Frá því að jarðhræringar hófust á Reykjanesskaga í árslok 2019 hefur verið unnið að gerð sviðsmynda eldgoss og hraunflæðis. Markmið þeirrar vinnu er greina með hvaða hætti sé unnt og best að vernda íbúa og mikilvæga innviði fyrir hraunrennsli ef eldgos hefst.
Veðurstofa Íslands telur nú líklegastan upptakastað fyrir eldgos vera á milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Sú sviðsmynd gæti leitt af sér hraunflæði er á skömmum tíma næði til byggðar í Grindavík.
Almannavarnarkerfið og hlutaðeigandi aðilar hafa unnið að mögulegum viðbrögðum til að takmarka tjón á byggð og innviðum á Reykjanesskaganum, meðal annars með byggingu varnargarða til varnar orkuverinu í Svartsengi. Verkís hefur kynnt drög að hönnun og útsetningu varnargarða ofan við Grindavík fyrir helstu hagaðilum og lagði fram minnisblað um málið.
Fólk og verðmæti í Grindavík
Í samantekt Byggðastofnunar frá desember 2023 kemur m.a. fram að íbúafjöldi Grindavíkur sé um 3.600 manns. Áætlað vinnuafl er um 2.100 manns og atvinnuleysi rétt rúm 2%. Sjávarútvegurinn er stærsta atvinnugreinin með ríflega 35% af heildaratvinnutekjum en næst kemur opinber þjónusta. Samkvæmt upplýsingum frá Náttúruhamfaratryggingum Íslands nema heildarverðmæti vátryggðra húseigna um 110 milljörðum króna. Auk þess nema verðmæti vátryggðs lausafjár, innbús og hafnar- og veitumannvirkja um 44 milljörðum. Eru þá ótalin verðmæti í götum, göngustígum, lóðum og öðrum samfélagslegum mannvirkjum á svæðinu.
Framkvæmd og stærð
Í minnisblaði Verkíss kom meðal annars fram að varnargarður sem innviðahópurinn hefur gert tillögu að ofan við Grindavík væri samtals um 7 km að lengd. Hann myndi liggja að mestu í hápunktum í landinu ofan og umhverfis Grindavík. Ljóst er að meginmarkmið garðsins er að verja byggð og innviði í Grindavík og yrði hann áberandi kennileiti. Garðurinn þverar Grindavíkurveg og Suðurstrandarveg ásamt því m.a. að liggja samsíða Nesvegi. Reynt verður á byggingartíma að milda áhrif garðsins og gera viðeigandi ráðstafanir til lengri tíma.
Lagt er til að byggja varnargarðinn í tveimur áföngum, þ.e. nyrsta hluta garðsins (merkt L7 og L8) sem fyrst, en vinna með samráð og hönnun annarra hluta á næstu mánuðum og hefja byggingu þeirra hluta vorið/sumarið 2024, nema augljós breyting verði á virkni þannig að hraða þurfi framkvæmdum. Þannig yrði forgangsraðað með tilliti til yfirvofandi hættu á eldgosi frá Sundhnúki nú, en aðrir hlutar unnir með meiri yfirvegun til að tryggja góða útfærslu næst byggð og innviðum.