EFTA-dómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu í máli starfsmanns Samgöngustofu gegn íslenska ríkinu að sá tími sem fer í ferðalög starfsmannsins vegna vinnu hans utan hefðbundins vinnutíma teljist „vinnutími“ í skilningi tilskipunar ESB. Að mati BHM hefur niðurstaðan fordæmisgildi fyrir alla ríkisstarfsmenn sem þurfa að ferðast til útlanda vegna vinnu sinnar.
Ekki skipti máli hvort ferðast sé innan yfirráðasvæðis EES-ríkjanna eða til eða frá þriðju ríkjum
Umræddur starfsmaður Samgöngustofu höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í því skyni að fá viðurkennt að sá tími sem hann hefði varið í ferðlög til útlanda og til baka vegna vinnu sinnar fæli í sér vinnutíma. Niðurstaða EFTA-dómstólsins er sett fram í dómi sem veitir ráðgefandi álit í málinu að beiðni Héraðsdóms Reykjavíkur. Álitaefnið sneri að að túlkun á hugtakinu „vinnutími“ í skilningi vinnutímatilskipunar ESB.
Í dómi EFTA-dómstólsins kemur fram að sá tími sem starfsmaður ver í ferðalög utan hefðbundins vinnutíma til áfangastaðar annars en fastrar eða eða hefðbundinnar starfsstöðvar, í því skyni að inna af hendi starf sitt eða skyldur, teljist „vinnutími“ í skilningi tilskipunarinnar. Ekki skipti máli hvort einvörðungu sé ferðast innan yfirráðasvæðis EES-ríkjanna eða til eða frá þriðju ríkjum.
Þá telur dómstóllinn að þegar ákvörðun um hvíldartíma er tekin megi líta á hótel eða aðra viðeigandi gistiaðstöðu sem heimili starfsmanns meðan á slíkum ferðum stendur enda þótt gistiaðstaðan hafi verið valin samkvæmt fyrirmælum vinnuveitanda. Enn fremur sé ekki nauðsynlegt að meta í hve miklum mæli vinna fer fram meðan á ferðunum stendur.
Að mati BHM hefur niðurstaða EFTA-dómstólsins skýrt fordæmisgildi fyrir alla starfsmenn ríkisins sem eru í sambærilegri stöðu og umræddur starfsmaður Samgöngustofu, þ.e. þurfa að ferðast til útlanda á vegum síns vinnuveitanda utan hefðbundins vinnutíma.
Fréttatilkynning EFTA-dómstólsins