Í lok árs 2019 bárust fregnir af alvarlegum lungnasýkingum í Wuhan-borg í Kína, þá af óþekktum orsökum. Í kjölfarið var staðfest að um sýkingar af völdum kórónaveiruafbrigðis væri að ræða. Sýking af völdum veirunnar hefur nú þegar verið greind hjá um sex þúsund manns, einkum í Kína. Sennilega er veiran upprunin í dýrum en hefur nú öðlast hæfileika til að sýkja menn og staðfest er að hún getur smitast manna á milli en óljóst er hversu smitandi hún er. Ekkert smit hefur verið staðfest á Íslandi.
Kórónaveirur eru nokkuð algeng orsök kvefs og öndunarfærasýkinga almennt hjá mönnum en þegar ný afbrigði berast úr dýrum í menn er þekkt að kórónaveirusýkingar geta verið alvarlegar. Flest tilfellin utan Kína hafa komið upp í Asíu en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) hafa hvatt sóttvarnayfirvöld um heim allan að gera ráðstafanir til að geta brugðist fljótt við ef veikin berst til fleiri landa. Sóttvarnalæknir gerir ráð fyrir að veiran muni berast til Íslands og leggur áhersla á að mikilvægt sé að grípa til ráðstafana til að hefta útbreiðslu hennar sem mest hér á landi. Viðbrögð yfirvalda hér á landi beinast, auk þess að hindra sem mest útbreiðslu veirunnar innanlands, að því að tryggja heilbrigðisþjónustu fyrir veika einstaklinga og viðhalda nauðsynlegri starfsemi innanlands.
Undirbúningur á Íslandi er hafinn, í samræmi við viðbragðsáætlanir sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og aðrar fyrirliggjandi viðbragðsáætlanir, s.s. sóttvarna fyrir alþjóðaflugvelli. Samráðsfundir Sóttvarnalæknis eru haldnir daglega og Embætti landlæknis, smitsjúkdómadeild Landspítala, Rauði Krossinn, heilbrigðisstofnanir, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðins og ferðaþjónustuaðilar eru meðal þeirra sem koma að vinnunni hérlendis.
Aðgerðir sem nú þegar hefur verið gripið til er birting og uppfærsla fræðsluefnis til almennings og heilbrigðisstarfsmanna á heimasíðu Embættis landlæknis. Leiðbeiningar til almennings og ferðamanna um hvernig eigi að nálgast heilbrigðiskerfið ef grunur vaknar um sýkingu af völdum veirunnar hafa verið gefnar út og á alþjóðlegum flugvöllum landsins verður unnið samkvæmt sérstökum viðbragðsáætlunum. Heilbrigðisstofnanir hafa einnig verið hvattar til að uppfæra sínar viðbragðsáætlanir.
Sóttvarnarlæknir og Embætti landlæknis halda mér og ráðuneyti mínu upplýstu um gang mála daglega. Auðvitað vonum við að veiran berist ekki hingað til lands, en ef og þegar það gerist verðum við undirbúin. Greinin birtist á vef stjórnarráðsins.