Það er augljóst af úrslitum sveitarstjórnakosninganna að Vinstri grænir, sem hafa á köflum flogið hátt á síðustu árum eru nú í pólitískri kreppu.
Þar kemur margt til.
Flokknum tókst um skeið að skapa sér sérstöðu í umhverfisvernd. Það var út af fyrir sig óþarfi af Sjálfstæðisflokknum að láta VG takast það vegna þess að Birgir Kjaran hafði fyrir 50-60 árum, þegar hann var lykilmaður í forystusveit Sjálfstæðisflokksins sett náttúruvernd á dagskrá hinnar pólitísku umræðu og á þeirri arfleifð byggir Sjálfstæðisflokkurinn.
Hið sama gerði Eysteinn Jónsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins nokrum árum síðar.
En nýjar kynslóðir í þessum flokkum höfðu takmarkaðan skilningi á mikilvægi þessa.
Nú má segja að víðtæk samstaða sé um umhverfisvernd í öllum flokkum og sérstaða VG því ekki sú sama og áður.
Jafnframt hefur VG tekizt það sama og Samfylkingunni, að tapa tengslum við rætur sínar í verkalýðshreyfingunni.
Nú er mikil gerjun á þeim vígstöðvum en hvorki VG né Samfylking eru í nokkurri snertingu við þá hreyfingu.
Það er yfirborðsleg skýring að pólitísk vandræði VG stafi af aðild að núverandi ríkisstjórn.
Líklegra er að það sé hvernig VG hagar aðild sinni að ríkisstjórninni sem valdi flokknum erfiðleikum.
Kjaradeila ljósmæðra er skýrt dæmi um það. Ráðherrar VG sköpuðu sér ekki nægilega sérstöðu innan ríkisstjórnarinnar vegna þeirrar deilu, sem nú er vonandi að leysast.
Pólitísk framtíð Vinstri grænna byggist á því að þeir dragi réttar ályktanir af mistökum sínum til þessa.“
Segir Styrmir Gunnarsson f.v. Ritstjóri Morgunblaðsins um stjórnmálin í dag.