,,Staksteinar í Mogga föstudagsins halda á lofti áróðurs- og lygagrein framkvæmdastjóra SFS um ágæti kvótakerfisins. Þar segir Staksteinahöfundur: Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, setti umræðu um sjávarútveg í sögulegt samhengi í ágætri grein hér í blaðinu í gær. Einn vandinn við umræðuna um þessa undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar er að svo virðist sem óminnishegrinn hafi tekið sér varanlega bólfestu í mörgum sem að henni koma og þess vegna skiptir máli að rifja upp ástæður þess að komið var á aflamarkskerfi og hvaða árangri það og framsal aflaheimilda hefur skilað. Segir Jón Kristjánsson fiskifræðingur:
Kvótinn var auðvitað ekki gjöf
Heiðrún minnir á að fram á níunda áratuginn, þegar aflamarkskerfið og svo framsalið í lok áratugarins var tekið upp, hafi verið „viðvarandi tap á veiðum og vinnslu og á tímabili stefndi í algert hrun þorskstofnsins“.
Grípa hafi þurft til aðgerða og með aflamarkskerfinu þurfti að takmarka veiðarnar. „Þegar kvóta var upphaflega úthlutað var miðað við veiðireynslu þeirra sem gert höfðu út,“ segir Heiðrún, og þetta er grundvallaratriði í umræðum um meintan „gjafakvóta“. Kvótinn var auðvitað ekki gjöf, þeir fengu hann sem höfðu veitt en þurftu í staðinn að þola það að veiðar þeirra voru takmarkaðar.
Umræðan um „gjafakvótann“ enn vitlausari
Frá tíma úthlutunarinnar hefur það að auki gerst að megnið af aflaheimildum hefur skipt um hendur, sem gerir umræðuna um „gjafakvótann“ enn vitlausari.
Með aflamarkskerfi og framsali tókst að snúa rekstri í sjávarútvegi við og nú er greinin öflug og skilar þjóðinni miklum ávinningi. Er ástæða til að sakna tíma ofveiði og viðvarandi rekstrarvanda?“
SFS (LÍÚ) reynir að hamra á lyginni
Það er alveg með ólíkindum hvernig SFS (LÍÚ) reynir að skrifa söguna eftir á með því að hamra á lyginni um að þorskstofninn hafi verið kominn að fótum fram vegna ofveiði og að öll útgerð hafi verið í kaldakoli, útgerðin sem byggði upp landið á tuttugustu öldinni.
Það var aldrei nein ofveiði á þorski. Með aðstoð hundruða togara útlendinga var 4-500 þús. tonna bókfærður þorskafli dreginn úr sjó í áratugi. Með hjálp Hafró og tillögum þeirra um sóknarsamdrátt og smáfiskafriðun eftir að við réðum landhelginni einir jókst aflinn í 460 þús. tonn 1981 þrátt fyrir skrapdagakerfið sem sett var á til að takmarka þorskveiðar.
En vegna rangrar veiðistýringar í aldursflokka sem olli offjölgun át stofninn sig út á gaddinn og horféll, því varð aðeins 300 þús tonna afli 1983 og kvótakerfið var sett á vegna meintrar ofveiði. Vanveiðin hélt áfram og aftur horféll þorskstofninn 1994 þegar kvótinn fór í 140 þús. tonn. Síðan hefur verið viðfarandi vanveiði og enn virðist stofninn vera að falla úr hor því vísitalan hefur lækkað um helming frá 2017. Hvers vegna líta SFS og Mogginn fram hjá rangri ráðgjöf og vanveiði en halda áfram að lofa kvótakerfið sem mestu snilld mannsins?“ Segir Jón Kristjánsson fiskifræðingu
Listi fyrir Heiðrúnu Lind um tengsl sjávarútvegsfyrirtækja við skattaskjólseyjar
https://gamli.frettatiminn.is/listi-fyrir-heidrunu-lind-um-tengsl-sjavarutvegsfyrirtaekja-vid-skattaskjolseyjar/