,,Þetta er auðvitað merkingarlaust. Fyrirtæki er hvorki talandi né skrifandi“
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslensku, hefur farið ítarlega yfir afsökunarbeiðni útgerðarfyrirtækisins Samherja og segir hana vægast sagt innihalda merkingarleysu og atriði sem koma málinu ekkert við.
Á hverju og hverja er verið að biðja afsökunar?
,,Undanfarin mörg ár hefur mikið verið fjallað um ýmis málefni er tengjast starfsemi Samherja. Samherji hefur á að skipa mjög hæfu starfsfólki á mörgum stöðum á landinu og í heiminum. Þetta starfsfólk hefur verið í forystu við uppbyggingu eins öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins og í fremstu röð í harðri samkeppni á alþjóðavísu.“
Þetta kemur málinu ekkert við. Enginn efast um að starfsfólk Samherja sé mjög hæft og fyrirtækið öflugt og framsækið. Þessi inngangur er eingöngu til þess ætlaður að ýta undir jákvæð viðhorf til fyrirtækisins áður en farið er að ræða ávirðingar þess. Lesendur kinka kolli og hugsa „já, þetta er nú allt saman satt og rétt, þetta er fyrirmyndarfyrirtæki“ – og verða tilbúnari til að fyrirgefa því.
„Bæði stjórnendum og starfsfólki hefur sviðið þessi umfjöllun og umræða um fyrirtækið og störf sín enda þykir þeim umfjöllunin hafa verið einhliða, ósanngjörn og ekki alltaf byggð á staðreyndum.“
Umræðan hefur ekkert snúist um almennt starfsfólk Samherja og störf þess, nema að því marki sem stjórnendur þess sjálfir hafa kosið að draga það inn í málið. Hér er látið eins og öll umræða um fyrirtækið undanfarið hafi verið neikvæð og einhliða en það er auðvitað rangt. Ekki er minnst á að stjórnendur fyrirtækisins hafa ekki nýtt tækifæri sem þeim hafa boðist til andsvara og til að leiðrétta það sem þeir telja ekki byggt á staðreyndum. Engin dæmi eru tekin um hvað það sé.
„Í slíkum aðstæðum, þegar vegið er að starfsheiðri með ósanngjörnum hætti á opinberum vettvangi, þá getur reynst erfitt að bregðast ekki við.“
Hér kemur ekki fram að starfsheiðri hverra hafi verið vegið. Áður var starfsfólk og stjórnendur sett undir einn hatt og þessi framsetning á að koma því inn hjá lesendum að vegið hafi verið að báðum hópum. Ekki er nefnt að stjórnendur fyrirtækisins hafa algerlega neitað að bregðast við á þeim vettvangi þar sem hinar ósanngjörnu ásakanir – að þeirra mati – hafa verið bornar fram.
„Í fjölmiðlum að undanförnu hefur verið fjallað um samskipti fólks sem skiptist á skoðunum og ræddi hvernig best væri að bregðast við þessum aðstæðum.“
Það var ekki bara rætt um viðbrögð við ásökunum, heldur einnig hvernig ætti að koma í veg fyrir að frambjóðandi sem var stjórnendum Samherja ekki þóknanlegur næði kjöri sem formaður í stéttarfélagi, nauðsyn þess að finna hagstæðan frambjóðanda í prófkjöri ráðandi stjórnmálaflokks, og hvernig ætti að hundelta tiltekna fréttamenn. Að tala um það sem skoðanaskipti um heppileg viðbrögð við aðstæðum er auðvitað rugl.
„Þarna var um að ræða persónuleg samskipti á milli starfsfélaga og vina sem enginn gerði ráð fyrir að yrðu opinber. Það breytir því þó ekki að þau orð og sú umræða sem þar var viðhöfð voru óheppileg.“
Það kemur málinu ekkert við hvort gert var ráð fyrir því að samskiptin yrðu opinber – þau eru jafn óeðlileg þrátt fyrir það. Þetta er bara sett þarna inn til að minna lesendur á að upplýst hafi verið með samskiptin með óeðlilegum aðferðum. Að segja að umræðan hafi verið „óheppileg“ er ansi vægt til orða tekið. Þar að auki snýst málið ekki bara um umræðuna, heldur líka um þær aðgerðir sem fyrirtækið hefur gripið til.
„Þá hafa stjórnendur Samherja brugðist harkalega við neikvæðri umfjöllun um félagið og ljóst að of langt hefur verið gengið í þeim viðbrögðum. Af þeim sökum vill Samherji biðjast afsökunar á þeirri framgöngu.“
Þetta er auðvitað merkingarlaust. Fyrirtæki er hvorki talandi né skrifandi. Það er ekki hægt að fara í meiðyrðamál við fyrirtæki. Fyrirtæki getur ekki beðist afsökunar. Það er mjög lýsandi að stjórnendur fyrirtækisins skuli ekki vilja leggja nafn sitt við þessa „afsökunarbeiðni“. Auk þess er ekki ljóst á hverju er verið að biðjast afsökunar – og hvern er verið að biðja afsökunar. Þjóðina? Helga Seljan og aðra sem hafa orðið fyrir barðinu á viðbrögðunum?“