Frú Þorbjörg Bergmann, fyrsti hafnfirski safnarinn
Byggðasafn Hafnarfjarðar opnar nýja þemasýningu í forsal Pakkhússins að Vesturgötu 6, miðvikudaginn 1. júní kl. 17:00. Sýningin ber heitið „Frú Þorbjörg Bergmann, fyrsti hafnfirski safnarinn.“ Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra flytur ávarp við opnunina.
Líf og söfnunarstarf Þorbjargar Sigurðardóttur Bergmann
Sýningin fjallar um líf og söfnunarstarf Þorbjargar Sigurðardóttir Bergmann sem var fædd í Pálsbæ á Seltjarnarnesi 13. apríl árið 1876. Að loknu Kvennaskólanámi árið 1898 réðst Þorbjörg í vinnu á Bíldudal þar sem hún kynntist mannsefni sínu, Sigfúsi Bergmann en þau gengu í hjónaband aldamótaárið 1900.
Sama ár fluttu þau til Hafnarfjarðar og urðu fljótlega áberandi í bæjarlífinu. Þorbjörg byrjaði snemma að safna þjóðlegum munum og virðist hennar helsta markmið hafa verið að bjarga þeim frá glötun. Hún gerði sér grein fyrir þeim breytingum sem voru að verða á íslensku samfélagi og nauðsyn þess að varðveita hina ýmsu muni sem segja má að hafi verið dæmigerðir í gamla íslenska bændasamfélaginu.
Um 400 munir voru í safni Þorbjargar Bergmann sem færðir voru Reykjavíkurfélaginu árið 1952 og síðar gefnir Árbæjarsafni árið 1958, munirnir mynduðu grunninn að Árbæjarsafni. Á sýningunni í Pakkhúsinu eru munir úr safni Þorbjargar sem fengnir voru að láni frá Borgarsögusafni; Árbæjarsafni og afkomendum Þorbjargar.