Stúlkan sem er 13 ára fannst látin um 150 metra frá heimili sínu. Fyrr um daginn hafði hún verið í heimsókn hjá vinkonu sinni og var á heimleið frá henni þegar að morðið virðist hafa átt sér stað.
Stúlkan sem hét Sunniva Ødegård fannst aðfararnótt mánudags en foreldrar hennar höfðu leitað í nokkra klukkutíma og hringt í aðra foreldra til þess að athuga með hvort að hún væri hjá vinum sínum í bænum Varhaug þar sem að aðeins 3.000 manns búa.
Fólk í bænum spyr sig hvernig svona lagað gæti gerst í svo litlu samfélagi, kirkja staðarins hefur verið opnuð.
Morðið átti sér stað aðeins um 20 metra frá heimili fólks sem að varð ekki vart við neitt. Einn íbúanna sagðist hafa heyrt eitthvað hljóð á stígnum þar sem að líkið fannst um nóttina en taldi að um væri að ræða hljóð frá vindinum en all hvass vindur var um nóttina. Líkið fannst rétt við húsið klukkan 03.10 um nóttina en enginn virðist hafa orðið var við neitt óeðlilegt.