Lúðvík Gizurarson er látinn. Lúðvík var mikils metinn og farsæll hæstaréttarlögmaður.
Það vakti mikla athygli fjölmiðla að hann hafði lengi haldið því fram að hann væri óskilgetinn sonur Hermanns Jónassonar f.v. forsætisráðherra. Og þá hálfbróðir Steingríms Hermannssonar f.v. formanns Framsóknarflokksins og forsætisráðherra.
Lúðvík Gizurarson höfðaði barnsfaðernismál árið 2004. Niðurstaða DNA-rannsóknar kom árið 2007 um að 99,9% líkur væru á að Lúðvík væri sonur Hermanns.
„Móðir mín tók það loforð af mér að ég myndi láta leiðrétta faðerni mitt að henni látinni“ sagði Lúðvík heitinn, þegar að málið var til meðferðar. Þá sagði hann jafnframt að hann væri ekki hissa á niðurstöðu DNA- rannsóknarinnar, en hún væri í samræmi við það sem að móðir hans hefði alltaf sagt honum.
Hermann Jónasson sat á Alþingi í yfir þrjátíu ár og gegndi embættum forsætis- dóms- og landbúnaðarráðherra í ýmsum ríkisstjórnum.
Lúðvík fékk niðurstöður rannsóknarinnar í hendur þremur árum eftir að málið var höfðað. Þær voru unnar úr lífsýnum úr móður hans, Hermanni Jónassyni og Lúðvíki sjálfum. Fjallað var m.a. um málið í Morgunblaðinu við það tækifæri:
,,Samkvæmt niðurstöðunni eru 99,9% líkur á að Hermann Jónasson hafi verið faðir Lúðvíks.
Erfiðlega gekk fyrir Lúðvík að fá það fram með dómi að framkvæma ætti rannsóknina en m.a. hafnaði Hæstiréttur að slík rannsókn skyldi fara fram nema Lúðvík leiddi að því líkur að Hermann væri faðir hans. Dóra Lúðvíksdóttir sagði í samtali við Morgunblaðið að málið væri mikill léttir fyrir föður sinn og alla fjölskylduna en málið hefði staðið yfir í um þrjú ár og fjölskyldan hefði viljað að ætterni þeirra lægi á hreinu. Munu dómstólar þurfa að staðfesta niðurstöðuna til að hún hljóti formlegt gildi.
Í fréttatilkynningu frá Lúðvík sjálfum kom fram að niðurstaðan hafi ekki komið honum á óvart. Hún hafi verið staðfesting á því sem móðir hans hefði sagt honum alla tíð. Kemur þar fram að hann gleðjist yfir því að málinu sé nú að ljúka. „Ég er óendanlega þakklátur öllum þeim sem hafa stutt í mig í þessum málarekstri,“ sagði í tilkynningunni.
Hermann Jónasson (fæddur 25. desember 1896, látinn 22. janúar 1976) var leiðtogi Framsóknarflokksins stóran hluta 20. aldar og þar með einn af áhrifamestu stjórnmálamönnum aldarinnar. Hann var einnig lögreglustjóri í Reykjavík 1929 – 1934.
Vottum við fjölskyldu og vinum Lúðvíks, innilegrar samúðar.