Eftir rúma viku hefst það sem átti að vera seinni hluti réttarhaldana í London þar sem Julian Assange berst gegn framsali til Bandaríkjanna. En þar verður byrjað aftur frá byrjun því fyrir þremur vikum fleygðu ameríkanar inn í réttinn nýju ákæruskjali með gerbreyttum áherslum þó að ákæruliðirnir séu þeir sömu og hámarksrefsingin hin sama: 175 ára í fangelsi.
Dómarinn hafnaði því að vísa málinu, eða að minnsta kosti nýja skjalinu, frá dómi. Amerikanar viðurkenndu að þetta væri gerbreytt akæruskjal þannig að þeir sendu inn nýja framsalskröfu. þetta leiðir til þess að formlega þarf að leysa Julian ur haldi og handtaka hann aftur og úrskurða í gæsluvarðhald. Þessi farsi allur fer fram í klefanum hans í Belmarsh öryggisfangelsinu.
Það kemur ekkert lengur á óvart í þessu ógeðfellda máli. Allar eðlilegar réttarfarsreglur eru þverbrotnar. Fyrir löngu er orðið ljóst að þetta er réttarfarshneiksli þar sem líf manns er undir. Lögmönnum Julian er ætlað að undirbúa vörn sína á þremur vikum í pólitískri ofsókn sem Bandarísk stjórnvöld hafa verið að undibúa í 10 ár.
Ég á enn stundum erfitt með að trúa því að ég sé að berjast fyrir lífi pólitísks fanga sem situr í klefa í London og hefur ekki hitt lögmenn sína í sex mánuði. Fyrir þann glæp að birta upplýsingar. Fyrir blaðamennsku. Þetta grófa brot verður ekki stöðvað nema fólk átti sig á því hvað er í húfi og spyrni við fótum.
Í gær var frumsýnd ný mynd þar sem farið er yfir málið. Ég ætla að mæla með myndinni þó að það sé hálf annkannalegt þar sem mér bregður sjáfum fyrir í henni.
Það eru grundvallarréttindi í húfi í þessu máli, ekki aðeins einstaklingurinn Julian Assange. Þetta er barátta við grimma misbeitingu valdsins. það er þó ekki valkostur að gefast upp. Sannleikurinn sigrar ofureflið.
Umræða