Loftslagssjóður auglýsir til umsóknar styrki til nýsköpunar og kynningar- og fræðslu á loftslagsmálum. Rannís hefur umsjón með sjóðnum, sem heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðherra.
Þetta er í þriðja skipti sem úthlutað verður úr Loftslagssjóði og eru rúmar 90 milljónir til ráðstöfunar að þessu sinni. Styrkirnir eru veittir til eins árs og er skipt í tvo flokka. Annars vegar er um að ræða ræða styrki til nýsköpunarverkefna en þeim er m.a. ætlað að styrkja rannsóknir og þróunarstarf í tengslum við innleiðingu á nýjum loftslagsvænum tæknilausnum og hönnun og getur upphæð styrks í þeim flokki numið allt að 13 milljónum króna. Hins vegar er um að ræða styrki til kynningar og fræðslu um loftslagsmál, sem geta numið allt að 7 milljón krónum.
24 verkefni hlutu styrk við úthlutun síðasta árs, 12 nýsköpunarverkefni og 12 kynningar- og fræðsluverkefni. Loftslagssjóður hefur frá fyrstu úthlutun veitt styrki að upphæð 335 milljónum króna, en 600 milljónum króna er varið til sjóðsins yfir fimm ára tímabil.
„Ég er mjög stoltur af tilurð Loftslagssjóðs, en stofnun sjóðsins árið 2019 er ein af aðgerðum stjórnvalda úr aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Sjóðurinn hefur undan farin tvö ár styrkt mörg mikilvæg og spennandi verkefni sem stuðla að lausnum í baráttunni við hlýnun jarðar og efla fræðslu um loftslagsmál. Ég hlakka til að sjá frekari árangur af þessu starfi á komandi árum,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra.
Umsóknarfrestur er til 9. desember 2021. Á heimasíðu Rannís má nálgast allar nánar upplýsingar um Loftslagssjóð, úthlutunarreglur og aðgang að umsóknarkerfi.