Þjóðin er stjórnarskrárgjafinn og setur valdhöfum mörk, en ekki öfugt
Um 8000 manns hafa undirritað áskorun um nýja stjórnarskrá strax og þar af um 800 manns á síðasta sólarhring. Það virðist vera rífandi gangur í undirskriftasöfnunninni og ef heldur áfram sem horfir, þá mun ekki verða hægt annað fyrir Alþingi en að virða niðurstöðuna og lögfesta nýju stjórnarskrána.
Nýju stjórnarskrána strax!
,,Við krefjumst þess að Alþingi virði niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012 og lögfesti nýju stjórnarskrána. Í kosningunni samþykktu yfir 2/3 hlutar kjósenda að tillögurnar sem kosið var um skyldu verða grundvöllur nýrrar stjórnarskrár. Tillögurnar eru heildstæður samfélagssáttmáli, það er ekki Alþingis að velja og hafna ákvæðum úr sáttmálanum.
Þjóðin er stjórnarskrárgjafinn og setur valdhöfum mörk en ekki öfugt. Við ætlum ekki að bíða í heilan áratug eftir að nýja stjórnarskráin taki gildi og því krefjumst við aðgerða strax! Undirskriftalistinn er opinn: 19.06.2020 – 19.10.2020″ Þannig hljómar áskorun um að staðfesta nýja stjórnarskrá fyrir Ísland og er fólk hvatt til þess að skrifa undir áskorunina.
Mikill fjöldi fólks hefur verið að skrifa undir áskorunina s.l. daga eða frá 300 til 800 manns á dag samkvæmt heimildum Fréttatímans. Þá heldur Stjórnarskrárfélagið úti facebooksíðu með um 8500 meðlimi og 8600 fylgjendum.