Frændhygli, spilling og pólitískar ráðningar
Útgerðarrisarnir á Íslandi ráða því sem þeir vilja ráða í íslensku samfélagi og fara sínu fram með góðu eða illu. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur doktors í íslenskum bókmenntum, rithöfundar og þjóðfræðings í síðdegisútvarpinu á Útvarp Sögu en hún var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar, þar sem rætt var um nýútkomna bók Ólínu sem nefnist Spegill fyrir skuggabaldur og fjallar um frændhygli, spillingu og pólitískar ráðningar.
,,Eins og gráir kettir um ganga Sjávarútvegsráðuneytisins“
Ólína segir í viðtalinu að um djúpt og þéttriðið net útgerðarrisana sé að ræða sem teygi sig út í alla kima samfélagsins og segir Ólína þá nota völd sín af mikilli óbilgirni. Ólína segir að eitt fyrirtæki ,Samherji tróni á toppnum hvað varðar völd og áhrif í samfélaginu ,,þetta eru mennirnir sem hringt er í þegar verið er að semja frumvörp sem varða sjávarútveg og þeir mæta í skjóli myrkurs heim til ráðherrans til að líta yfir frumvörpin og eru eins og gráir kettir um ganga Sjávarútvegsráðuneytisins“.