Ánægja íbúa Akureyrarbæjar með þjónustu sveitarfélagsins eykst milli ára í 11 af þeim 13 þjónustuþáttum sem Gallup spurði um til að kanna viðhorf íbúa til þjónustu sveitarfélagsins. Í tveimur flokkum er ánægjan jöfn því sem var árið á undan en 92% íbúa Akureyrarbæjar eru samkvæmt könnuninni ánægðir með sveitarfélagið sem stað til að búa á.
Áhersla á að auka þjónustu við barnafjölskyldur
Niðurstöður könnunarinnar sýna glöggt ákall íbúa sveitarfélagsins um að þjónusta við barnafólk og þjónusta leikskóla verði betri. Sú áhersla íbúa endurspeglast í þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið í fjárhags- og framkvæmdaáætlun Akureyrarbæjar þ.e. uppbygging leikskóla auk aðgerða til að fjölga dagforeldrum og niðurgreiða kostnað við vistun barna hjá dagforeldrum.
Leiðandi í umhverfismálum
Akureyrarbær hefur um langt skeið lagt áherslu á að vera leiðandi sveitarfélag í umhverfismálum og því ánægjulegt að sjá að íbúar Akureyrarbæjar meta árangur sveitarfélagsins góðan ef marka má niðurstöður könnunarinnar. Í öllum þeim spurningum sem lagðar eru fyrir íbúa og varða umhverfismál er Akureyrarbær í einu af þremur efstu sætum þeirra 19 sveitarfélaga sem taka þátt í könnuninni og í fyrsta sæti þegar spurt er um hvernig sveitarfélagið stuðli að umhverfisvænum samgöngum. Akureyrarbær hyggst áfram leggja áherslu á umhverfismál og vill gera sífellt betur í þeim mikilvæga málaflokki.
Könnunin fór fram 7. nóvember 2018 – 2. janúar 2019 á meðal íbúa 19 stærstu sveitarfélaga landsins.