Rangur og villandi málflutningur
Afnám krónu-á-móti-krónu skerðingar er ein af þeim úrbótum sem hægt er að framkvæma strax ef vilji er fyrir hendi, án þess að farið verði í kerfisbreytingar eða heildarendurskoðun á almannatryggingalögunum ljúki. Þessi afstaða ÖBÍ hefur lengi verið ljós. Henni hefur verið haldið fram gagnvart stjórnvöldum og almenningi um margra ára skeið.
Núverandi ríkisstjórn rígheldur í kröfu um að þessi óréttláta skerðing, sem tæplega verður kölluð annað en kerfisbundið ofbeldi, verði ekki afnumin nema ÖBÍ fallist á að taka upp svokallað starfsgetumat og breiði faðminn á móti nýju framfærslukerfi almannatrygginga. Það er ekki til umræðu að afnema óréttlætið. Það er bara „computer says no“.
Í þessu ljósi alveg sérstaklega sorglegt að hlusta á villandi og rangan málflutning í ræðustóli Alþingis þar sem ÖBÍ er beinlínis sagt leggjast gegn afnámi krónu-á-móti krónu skerðingarinnar.
Þessu hafnar Öryrkjabandalag Íslands. Krónu-á-móti-krónu skerðingu á að afnema strax án tillits til annarra breytinga. Hún ein og sér heldur þúsundum fjölskyldna í fátæktargildru og hana á að afnema eina og sér. ÖBÍ undirbýr nú málsókn á hendur ríkinu í því skyni að aflétta þessu kerfisbundna ofbeldi.
Stjórnvöld settu á stofn samráðshóp um breytt framfærslukerfi almannatrygginga. Formaður ÖBÍ tekur virkan þátt í starfi hópsins. Nú eru komin fram lokadrög að skýrslu hans. ÖBÍ hefur tekið þá afstöðu að skrifa ekki undir skýrsluna. Það er gert af þeirri ástæðu að lausir endar í því starfi eru einfaldlega of margir. Mannsæmandi afkoma er ekki tryggð. Krónu-á-móti-krónu skerðing verður ekki afnumin skilyrðislaust. Ekki er tekið á samspili lífeyriskerfisins og almannatrygginga, vinnumarkaðsmálin óklár, og svona má áfram telja.
Alþýðusamband Íslands tekur undir sjónarmið ÖBÍ og skrifar heldur ekki undir skýrslu starfshópsins. Þetta upplýsti forseti ASÍ á málþingi sem kjarahópur ÖBÍ stóð fyrir í gær: Eru öryrkjar fólkið með breiðu bökin? Þar benti hún á að hvorki opinber né almennur vinnumarkaður býður upp á störf með lágu starfshlutfalli. Það er í reynd algjör forsenda þess að hugmyndir um starfsgetumat geti gengið upp.
„Krónu á móti krónu“ skerðing hittir það fólk verst sem hefur lægstu framfærsluna í íslensku samfélagi og ef stjórnvöld vilja vinna gegn fátækt, ætti afnám hennar ekki aðeins að vera forgangsmál. Því ætti að vera löngu lokið.