Nú ættu allir sem sendu inn kröfu í kröfu í tryggingafé eftir rekstrarstöðvun Gamanferða að hafa fengið tilkynningu um niðurstöðuna. Byrjað verður að greiða samþykktar kröfur á næstu dögum
Hafði áhrif á ferðaáætlanir yfir 3.000 manns
Alls bárust Ferðamálastofu 1.044 kröfur en rekstrarstöðvunin hafði hins vegar áhrif á ferðaáætlanir yfir 3.000 manns. Vinna Ferðamálastofu í kjölfarið miðaði að því að gera fólki kleift að nýta eins og frekast var kostur þá þjónustu sem það hafði þegar bókað og greitt fyrir eða greitt inn á. Þannig var fjölmörgum tilfellum hægt að nýta hluta pakkaferðar, t.d. tónleikamiða, hótelgistinu eða flug.
Samþykktar kröfur greiddar að fullu
Markmiðið var að nýta sem best tryggingafé ferðaskrifstofunnar með það fyrir augum að fólk fengi til baka það sem greitt hafði verið fyrir ferðir eða hluta ferð sem ekki var hægt að fara. Þetta tókst því árangurinn af starfi Ferðamálastofu varð sá að trygging Gamanferða dugði fyrir samþykktum kröfum.
Þannig kom ekki til þess að skerða þyrfti greiðslur til þeirra sem áttu réttmæta kröfu. Heildarfjárhæð krafna voru tæpar 203 milljónir. Af 1.044 kröfum voru 980 samþykktar, þar af 36 að hluta. Heildarfjárhæð samþykktra krafna voru tæpar 190 milljónir. Í 44 tilfellum voru kröfur dregnar til baka og 20 var hafnað.
Hafi kröfuhöfum ekki borist tilkynning inn í þjónustugátt Ferðamálastofu eða tölvupósti er viðkomandi beðinn að hafa samband við Ferðamálastofu á netfangið mail@ferdamalastofa.is .