Efling-stéttarfélag hefur boðist til að fresta verkfallsaðgerðum í tvo sólarhringa gegn því að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri veiti skriflega staðfestingu á „Kastljósstilboðinu“. Erindi þessa efnis hefur verið sent til borgarstjóra með afriti á ríkissáttasemjara.
Í Kastljósi 19. febrúar síðastliðinn ræddi borgarstjóri um 110 þúsund króna grunnlaunahækkun á samningstíma fyrir ófaglærðan Eflingarstarfsmann. Heildstætt tilboð í þá veru hefur ekki komið fram á samningafundum þrátt fyrir athugasemdir og óskir samninganefndar Eflingar.
Með erindi Eflingar til borgarstjóra fylgir tillaga að skriflegu samkomulagi milli samningsaðila. Í því er fastbundið að grunnlaun Eflingarfélaga hækki á bilinu 100-110 þúsund á samningstímanum, mest hjá lægst launuðum og minnst hjá þeim hæst launuðu.
Í samkomulaginu segir að með þessu hafi sátt náðst um grunnlaunahækkanir á samningstímanum og þá sé hægt að hefja vinnu við að ná saman um önnur atriði. Samkomulagið tekur eingöngu til grunnlauna en ekki annarra atriða, svo sem álaga, sérgreiðslna og uppbóta.
Verkfalli yrði frestað í tvo sólarhringa, frá því klukkan 00:01 á miðvikudag til klukkan 23:59 á fimmtudag næstkomandi.
Erindið var sent til borgarstjóra klukkan 11:00 og er gefinn frestur til svars til klukkan 16:00 í dag, 3. mars.
„Þetta samkomulag myndi staðfesta það sem borgarstjóri hefur sjálfur lagt fram í umræðunni, það er að segja að Eflingarfélögum á lægstu launum standi til boða 20 þúsund grunnlaunahækkun umfram Lífskjarasamninginn. Við höfum sagt að slíkt tilboð myndi færa okkur í samkomulagsátt og viljum með þessu sýna að okkur er alvara með því. Við göngum út frá því að borgarstjóra hafi líka verið alvara og sé tilbúinn að sýna það í verki. Svo verður að koma í ljós hvernig gengur að ná saman um önnur atriði,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sjá meðfylgjandi samkomulagið eins og Efling lagði það fram við borgarstjóra:
SAMKOMULAG UM GRUNN TIL FRAMHALDS KJARAVIÐRÆÐNA
Reykjavíkurborg og Efling – stéttarfélag gera með sér eftirfarandi samkomulag.
Í væntanlegum kjarasamningi verði grunnþrep launatöflu Eflingarfélaga sem starfa hjá borginni hækkuð um á bilinu 100-110 þúsund krónur á samningstímanum.
Hækkunin fari úr því að vera 110 þúsund krónur í lægstu launaflokkum niður í 100 þúsund krónur í hæstu launaflokkum. Hækkunin verði 110 þúsund í launaflokkum 228 og neðar og fjari út niður í 100 þúsund í launaflokkum 250 og ofar með jöfnu millibili. Er þar með kominn á sameiginlegur skilningur milli samningsaðila um grunnlaunahækkanir í komandi kjarasamningi.
Samkomulagið nær ekki til launagreiðslna utan launatöflu, svo sem sérgreiðslna, uppbóta og álagsgreiðslna.
Með þessu samkomulagi hefur að mati samningsaðila skapast grundvöllur til frekara framhalds viðræðna. Samninganefndum er falið að vinna áfram að lausn kjaradeilunnar undir stjórn ríkissáttasemjara, með það í huga að leysa úr útistandandi samningsatriðum. Samkomulag þetta felur ekki í sér afstöðu eða skuldbindingu varðandi önnur samningsatriði en launatöflu.
Til viðurkenningar á samkomulagi þessu frestar Efling – stéttarfélag verkfallsaðgerðum frá klukkan 00:01 í upphafi dags miðvikudaginn 4. mars og fram til klukkan 23:59 í lok dags fimmtudaginn 5. mars, samtals í tvo sólarhringa. Félagsmönnum er heimilað að vinna í samræmi við gildandi kjarasamning á þessum tíma. Að þeim tíma loknum hefst verkfall að nýju nema samningsaðilar hafi orðið ásáttir um annað.
Afrit sent ríkissáttasemjara.
Reykjavík, 3. mars 2020
f.h. Reykjavíkurborgar f.h. Eflingar
______________________________ _________________________________________
Dagur B. Eggertsson Sólveig Anna Jónsdóttir borgarstjóri formaður