Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mælti á Alþingi í dag fyrir breytingu á lögum um skráningu einstaklinga. Í frumvarpinu er veitt heimild til að gefa út kennitölur til andvana fædda barna sem fæðast eftir 22. viku meðgöngu. Með breytingunni öðlast foreldrar þessara barna tiltekin mikilvæg réttindi, svo sem til fæðingarorlofs. Þar af leiðandi er nauðsynlegt að halda skrá um þessa einstaklinga en einnig í þágu heilbrigðisvísinda.
Þær kennitölur sem úthlutað verður í þessum tilvikum eru svokallaðar kerfiskennitölur en þær verða aðgreindar frá hefðbundnum kennitölum í kerfum þjóðskrár og notaðar af opinberum stofnunum til að veita tiltekna þjónustu. Fjallað er um kerfiskennitölur í lögum um skráningu einstaklinga, sem tóku gildi um síðustu áramót, en ákvæði um kerfiskennitölur áttu að taka gildi um næstu áramót. Í frumvarpinu er lagt til að gildistöku ákvæðis um kerfiskennitölur verði frestað til 1. maí 2021 til að veita stofnunum ríkisins og atvinnulífinu tækifæri til að aðlagast þessum breytingum.
Samkvæmt ákvæði um kerfiskennitölur geta erlendir ríkisborgarar, sem uppfylla ekki skilyrði til að fá hefðbundna kennitölu, fengið útgefna kerfiskennitölu vegna sérstakra hagsmuna hér á landi. Þessar kerfiskennitölur eru notaðar af opinberum stofnunum t.d. ef þessir einstaklingar þurfa að greiða skatt, nýta læknisþjónustu o.fl., án þess að einstaklingarnir öðlist réttindi hér á landi.
Loks er í frumvarpinu lagt til að fresta gildistöku ákvæðis um að bannað verði að miðla þjóðskránni í heild sinni nema í undantekningartilvikum til 1. júní 2022. Ákvæðið átti að taka gildi næstu áramót en þar sem fyrirséð er að þjóðskrárkerfið verði ekki tilbúið tæknilega fyrir þetta bann um næstu áramót er lagt til að fresta gildistöku ákvæðisins.