Óttast afskipti skæruliðadeildar Samherja
Þingflokkur Pírata hefur sent formlegt erindi til ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, um að stofnunin skipuleggi kosningaeftirlit hér á landi í alþingiskosningunum í haust. Flokkurinn lýsir yfir áhyggjum af afskiptum Samherja af fjölmiðlum og prófkjörsmálum.
Þetta kom fram í máli Andrésar Inga Jónssonar þingmanns Pírata á Alþingi í dag. Hann fundaði í síðustu viku með fulltrúum lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu ÖSE til að meta þörfina á kosningaeftirliti í alþingiskosningunum í haust. Rúv.is tók viðtal við þingmanninn og þar segir:
„Þar lýsti ég áhyggjum af stöðu fjölmiðla, sérstaklega í ljósi þess sem við þá vissum, hvernig Samherji hefur undanfarna mánuði beitt sér gegn Helga Seljan vegna frétta um starfsemi fyrirtækisins í Namibíu. Slíkar aðgerðir geta hæglega haft kælandi áhrif á gagnrýna fjölmiðla, sem aftur hefur neikvæð áhrif á möguleika okkar til að tryggja frjálsar og sanngjarnar kosningar. Á þeim dögum sem liðnir eru síðan fulltrúar ÖSE funduðu með okkur hefur staðan breyst gríðarlega. Stundin og Kjarninn hafa leitt í ljós að afskipti Samherja voru miklu mun skipulagðari og djúpstæðari,“ sagði Andrés.
Andrés vísar þarna í umfjöllun Stundarinnar og Kjarnans um hina svokölluðu „skæruliðadeild“ Samherja. Þar kemur kemur fram að starfsmenn á vegum Samherja hafi meðal annars reynt að hafa áhrif á formannskosningu í Blaðamannafélagi Íslands. Þá hafi þeir einnig rætt um að „koma saman nothæfum lista“ í prófkjöri sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi.
Andrés sagði að staðan væri grafalvarleg.
„Í kosningum, sem munu meðal annars snúast um eignarhald þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni, þá er stórhættulegt að fjársterkt útgerðarfyrirtæki beiti sér með þessum hætti gegn gervöllu gangverki lýðræðisins. Beiti hagnaðinum af þessum sömu auðlindum í herferðir gegn pólitískum andstæðingum, opinberri umræðu og frjálsum fréttaflutningi. Þingflokkur Pírata hefur þess vegna sent formlegt erindi til ÖSE, þar sem við köllum eftir því að stofnunin skipuleggi kosningaeftirlit í haust,“ sagði Andrés í viðtali við rúv.is