FÍB svarar málsvara tryggingafélaganna
FÍB skammaði tryggingafélögin fyrir okur á bílatryggingum í grein hér á Vísi. Katrín Júlíusdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja brást við á sama vettvangi. Hún tók að sér málsvörn fyrir tryggingafélögin fjögur sem sögð eru starfa á samkeppnismarkaði. Því miður halda skýringar hennar litlu vatni og töluverðrar ónákvæmni gætir í tölum sem þar eru settar fram. Að ógleymdu því að hún minnist ekki á fílinn í herberginu.
FÍB benti á að á undanförnum 6 árum hefðu iðgjöld bílatrygginga hækkað um 44% meðan verðlagsvísitala hefði á sama tíma hækkað um 17% og slysum í umferðinni fækkað verulega. Málsvarinn fullyrti í svari sínu að viðgerðarkostnaður bifreiða hefði hækkað um 45% og laun um 69% á þessu tímabili og það sýndi að hækkun iðgjaldanna væri til að mæta þeim kostnaði.
Hagstofan tekur ekki undir þessar tölur málsvara tryggingafélaganna. Viðgerðir og viðhald bíla hafa hækkað um 35% á tímabilinu, ekki 45%. En það segir ekki alla söguna. Bílar hafa aðeins hækkað í verði um 2,8% og varahlutir hafa lækkað í verði um -9,3%. Þar að auki er viðgerðarkostnaður ökutækja aðeins lítið brot af tjónabótum tryggingafélaganna enda selja þau viðgerðarhæfa bíla frá sér.
Hafa laun virkilega hækkað um 69% á síðustu 6 árum og þannig leitt til hærri bótagreiðslna? Launavísitala Hagstofunnar segir að hækkunin hafi verið 54%. Einnig þarf að hafa í huga að bótauppgjör vegna örorku miðast við meðaltal árslauna 3 árum fyrir slysið. Það tekur oftast nær mörg ár að úrskurða um þessar bætur, þannig að núna eru tryggingafélögin að miða við laun áður en laun fóru að hækka umtalsvert. Og jafnvel þó þær bætur séu reiknaðar upp miðað við hækkun launavísitölu, þá hafa bæturnar ekki tærnar þar sem undanfarnar launahækkanir hafa hælana.
Að sjálfsögðu hefur mikil áhrif á kostnað tryggingafélaganna að almennt verðlag hefur ekki hækkað nema um 17% á síðustu sex árum. En mest áhrif hefur að slösuðum í umferðinni hefur fækkað um 23%. Þetta eru tölurnar sem sýna hvað best að engin innistæða er fyrir 44% hækkun iðgjaldanna.
Málsvarinn segir að iðgjöld þurfi að standa undir kostnaði tryggingafélaganna og þau geri það sjaldnast. Þetta er marklaust. Tryggingafélögin búa til eigin tölur um tjónakostnað og hræra í þeim eftir því hvort þurfi frekar að sýna góðan hagnað eða hlaða í bótasjóðina, sem núna kallast tjónaskuld.
Fíllinn í herberginu – bótasjóðirnir
Og þá er komið að fílnum í herberginu. Málsvarinn segir að hagnaður tryggingafélaganna að undanförnu sé að mestu til kominn vegna ávöxtunar fjárfestingareigna (hlutabréf hafa hækkað). Tryggingafélögin geti ekki einungis treyst á slíkan hagnað og því þurfi grunnreksturinn að bera sig.
Í hvaða heimi lifa tryggingafélögin, Fjármálaeftirlitið og Samtök fjármálafyrirtækja, ef þau telja að tryggingafélög geti ekki treyst á að fá hagnað af ávöxtun eigna sinna? Hvers vegna eiga bankar, fjárfestingasjóðir og lífeyrissjóðir að treysta á ávöxtun eigna en ekki tryggingafélög? Starfa svona miklir viðvaningar hjá tryggingafélögunum við fjárfestingarnar?
Hvað bílatryggingar áhrærir, þá byggir hin góða ávöxtun tryggingafélaganna á spikfeitum bótasjóði. Þessi bótasjóður stóð í 50 milljörðum króna um síðustu áramót og hann er alfarið myndaður úr ofteknum iðjgöldum af lögboðnum ábyrgðar- og slysatryggingum ökutækja. Fyrir 6 árum stóð sjóðurinn í 27 milljörðum króna. Tapið á tryggingarekstrinum hefur sem sagt ekki verið meira en svo að félögunum hefur tekist að nurla saman 50 milljarða króna afgangi sem þau ávaxta skattfrjálst með því að kalla þessu stærstu eign sína tjónaskuld en ekki bótasjóð.
Bótasjóðunum á að skila
Það svakalegasta er svo að tryggingafélögin ættu fyrir löngu að vera búin að skila mestum hluta þessara bótasjóða til tryggingataka, til dæmis í formi lækkaðra iðgjalda. Langt er síðan Evrópusambandið breytti fyrirkomulagi reikningsskila tryggingafélaga með svokallaðri Solvency 2 reglugerð. Með þeirri breytingum á eigið fé tryggingafélaganna að mæta áhættu vegna tryggingastarfseminnar. Ekki þarf lengur bótasjóði/tjónaskuld til að mæta tjónsáhættu.
Fyrir liggur að eiginfjárstaða tryggingafélaganna er firnasterk. Hvernig stendur þá á því að tryggingafélögin halda áfram að bæta í bótasjóðina, þó fyrir liggi að fjármunirnir eru margfalt það sem þarf til að mæta áhættu? Hvers vegna tekur fjármálaeftirlit Seðlabankans ekki í taumana?
Málsvari tryggingafélaganna segir að 75% bótagreiðslna vegna varanlegrar örorku eftir bílslys sé vegna líkamstjóna sem metin eru til 15% varanlegrar örorku eða lægri. Hún segir þarna mun lengra gengið í bótagreiðslum en í nágrannalöndunum. Án vafa er ástæða til að huga að breytingum á þessu fyrirkomulagi, sérstaklega þegar fólk hefur orðið fyrir litlu eða engu fjárhagstjóni. En hvers vegna eru tryggingafélögin fyrst núna að vekja athygli á þessu? Þetta hefur verið svona frá því skaðabótalögum var breytt fyrir 22 árum. Hvers konar ábyrgðarleysi er það af atvinnugreininni að láta reka undan vindi og hækka frekar iðgjöld á bíleigendur? Þetta eru engar smáupphæðir.
Ekki eftir neinu að bíða
Málsvarinn segir að Samtök fjármálafyrirtækja vilji gjarnan eiga samtal um það sem betur má fara í starfsumhverfi tryggingafélaga. Einnig nefnir hún að ræða þurfi gildandi ákvæði skaðabótalaga. Hún segir samtökin kalla eftir góðu samtali við FÍB og aðra talsmenn neytenda ásamt stjórnvöldum um raunhæfar leiðir að því markmiði að lækka iðgjöld trygginga enda sé það allra hagur.
Þau orð vita á gott. FÍB er alltaf tilbúið til viðræðna um bættan hag neytenda og heilbrigða samkeppni. Ekki er eftir neinu að bíða hvað tryggingafélögin áhrærir. Þau geta byrjað að skila bótasjóðunum að stórum hluta til baka, enda er þeirra ekki þörf. Til dæmis mætti gera það með skipulagri og gegnsærri lækkun iðgjalda á nokkrum árum. Þau geta líka byrjað að ræða við löggjafann um skynsamlegar endurbætur á skaðabótalögunum. Ekki mun FÍB standa í vegi fyrir því.
Höfundur er framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda.