Umhverfisstofnun hefur ákveðið að leggja stjórnvaldssekt á Costco Wholesale Iceland ehf. að upphæð 20.000.000 króna vegna brota á ákvæðum um mengunarvarnir, sbr. 8. tl. 1. mgr. 67. gr. laga nr. 67/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Brot þessi leiddu til þess að a.m.k. 111.000 lítrar af dísilolíu losnuðu út í fráveitu Hafnarfjarðar og þaðan út í sjó.
Costco er starfsleyfisskyldur rekstraraðili í skilningi laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, sbr. 6. gr. laganna sbr. viðauka IV við lögin. Starfsleyfisskyldum rekstraraðilum ber m.a. að tryggja að starfsemi þeirra sé í samræmi við ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerða og starfsleyfisskilyrða settra samkvæmt þeim sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Umhverfisstofnun telur að verulega hafi skort á frumkvæði, vöktun og viðbragð af hálfu Costco vegna ofangreinds olíuleka. Í ljósi alvarleika brotsins og skorti á árvekni ákvað Umhverfisstofnun því að leggja á fyrrgreinda stjórnvaldssekt.
Bréf: Ákvörðun um álagningu stjórnvaldssektar