Tveir erlendir ferðamenn létust í umferðarslysinu sem varð á þjóðveginum við Skaftafell í morgun. Í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurlandi segir að þeir hafi verið úrskurðaðir látnir á vettvangi.
Slysið varð skömmu fyrir klukkan tíu í morgun. Tveir bílar sem komu úr gagnstæðri átt skullu saman rétt vestan við afleggjarann að Skaftafelli.
Átta voru í bílunum. Sex voru flutt með þyrlu til aðhlynningar á Landspítalann í Fossvogi. Þjóðvegurinn við slysstaðinn er lokaður en ekið er um hjáleið við Skaftafell.
Mikill viðbúnaður var á slysstað. Hópslysaáætlun var virkjuð og voru slökkvilið, lögregla, sjúkrabílar og björgunarsveitir á staðnum, en auk þess sendi Landhelgisgæslan tvær þyrlur á vettvang.
Ekkert liggur fyrir um aðdraganda slyssins, en sögn lögreglu var ágætis veður á slysstað en hálka á veginum. Í tilkynningu lögreglu segir að vinna á vettvangi sé langt komin. Rannsókn er á frumstigi og er í höndum lögreglunnar á Suðurlandi.
Þetta er annað banaslys í umferðinni á þessu ári. Tvennt lést í árekstri á Grindavíkurvegi í síðustu viku.