Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 26. – 1. febrúar, en alls var tilkynnt um 67 umferðaróhöpp í umdæminu.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 26. janúar. Kl. 0.19 missti ökumaður á leið suður Gufunesveg í Reykjavík, að gatnamótum Strandvegar, stjórn á bifreið sinni þegar hann var að teygja sig í símann. Við það hafnaði bifreiðin utan vegar og á upplýsingatöflu. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.50 varð tveggja bíla árekstur á Miklubraut í Reykjavík, á gatnamótum við Kringlumýrarbraut, en þeim var ekið úr gagnstæðri átt. Í aðdragandanum ætlaði ökumaðurinn sem ók vestur Miklubraut að taka vinstri beygju á gatnamótum og aka suður Kringlumýrarbraut þegar árekstur varð með þeim. Svo virðist sem grænt ljós hafi logað fyrir þann sem ók í austurátt. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 28. janúar. Kl. 20.33 missti ökumaður á leið suður Ásvallabraut í Hafnarfirði, nálægt Aftantorgi, stjórn á bifreið sinni í beygju, en við það hafnaði hún á ljósastaur. Ökumaðurinn og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 21.44 varð tveggja bíla árekstur á Grensásvegi í Reykjavík, á gatnamótum við Réttarholtsveg, en þeim var ekið úr gagnstæðri átt. Í aðdragandanum ætlaði ökumaðurinn sem ók austur Grensásveg að taka vinstri beygju á gatnamótum og aka norður Réttarholtsveg þegar árekstur varð með þeim. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 30. janúar. Kl. 11.52 slasaðist ökumaður strætó þegar verið var að draga vagninn, sem var fastur í snjó, af stað aftur í Skeljanesi í Reykjavík. Við átakið brotnaði kaðalfesting dráttarbifreiðarinnar og hafnaði á framrúðu strætisvagnsins, sem brotnaði við það. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 13.47 var bifreið ekið vestur Vesturlandsveg í Reykjavík, á móts við Ártúnsholt, og aftan á aðra bifreið sem var á sömu leið. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.16 missti ökumaður á leið suður Breiðhöfða í Reykjavík, að gatnamótum við Stórhöfða, stjórn á bifreið sinni, en við það hafnaði hún á steyptum vegstólpa. Í aðdragandanum sagðist ökumaðurinn hafa verið að forðast árekstur við gangandi vegfaranda sem gekk yfir götuna. Þarna er þrenging á veginum vegna vegavinnu og er steinstólpum raðað upp í beygju sem þar er til þess að vernda vinnusvæðið. Bifreiðin var á slitnum hjólbörðum, en bæði afturdekkin voru sumardekk. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.