Í samráðsgátt stjórnvalda eru nú kynnt drög að breytingum á reglugerð um ökuskírteini (nr. 830/2011). Þær fela það í sér að fólk 65 ára og eldra þarf ekki að gangast undir læknisskoðun á grundvelli aldurs til að halda ökuréttindum sínum fram til 75 ára aldurs. Aldursmörk fyrir útgáfu ökuskírteinis án kröfu um læknisvottorð verði m.ö.o. hækkuð í 75 ára aldur.
Hægt er að senda inn umsögn eða ábendingar til og með 23. janúar 2026.
„Markmiðið er að einfalda umsóknarferlið, gera það mannlegra og nútímalegra. Helstu rök fyrir breytingunum eru annars vegar að fólk er heilbrigðara og lifir lengur nú en áður og hins vegar er sjaldgæft að umsóknum fólks á þessum aldri um endurnýjun ökuskírteinis sé hafnað,“ segir Inga Sæland settur innviðaráðherra.
Gildandi kröfur leiða til þess að gefa þurfi út mikinn fjölda vottorða ár hvert og því munu breytingarnar draga úr álagi á lækna sem framkvæma læknisskoðanir og veita vottorð. Á landsvísu sóttu rúmlega 16 þúsund eldri borgarar um endurnýjun ökuskírteina árið 2024.
Eftir sem áður gildir meginregla 48. gr. umferðarlaga um að ökumönnum beri að tryggja að þeir séu líkamlega og andlega færir um að stjórna ökutæki í hvert sinn – sama á hvaða aldri þeir eru.
Málið var unnið í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið sem óskaði eftir samvinnu um að gera þessar breytingar.

