Þolendur áreitni og ofbeldis leiti sér aðstoðar
Allt of óalgengt er að þolendur kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni og ofbeldis á vinnustöðum leiti sér aðstoðar. BSRB telur mikilvægt að bæta þekkingu bæði starfsmanna og yfirmanna.
Það er sjálfsagður réttur launafólks að búa við gagnkvæma virðingu í samskiptum á vinnustaðnum. Það þýðir að starfsmenn eiga rétt á að njóta skilyrðislausrar verndar fyrir kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Þegar brotið er á starfsfólki getur það leitað til yfirmanns til að fá úrlausn sinna mála og til stéttarfélagsins síns ef það ber ekki tilætlaðan árangur.
Áreitni og ofbeldi getur haft ýmiskonar afleiðingar, bæði fyrir þá einstaklinga sem fyrir því verða, en einnig fyrir vinnustaðina og samfélagið í heild. Einstaklingarnir geta upplifað verri heilsu, streitu, þunglyndi, niðurlægingu og pirring, auk þess sem áreitnin og ofbeldið geta haft í för með sér tekjutap fyrir þolendurna.
Skýr ákvæði eru í lögum um rétt starfsmanna þegar kemur að kynbundnu og kynferðislegri áreitni og ofbeldi. Atvinnurekendum ber skylda til að vernda starfsmenn fyrir áreiti, hvort sem er af völdum samstarfsmanna, yfirmanna eða utanaðkomandi aðila, svo sem viðskiptavina. Atvinnurekendum ber einnig að bregðast hratt við kvörtunum og tryggja góða líðan þess sem kvartar, hvort sem athugun leiðir í ljós að um áreiti hafi verið að ræða eða ekki.
BSRB, ASÍ, BHM, KÍ, Jafnréttisráð og Jafnréttisstofa hafa gefið út bækling þar sem farið er yfir ýmis atriði tengt kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Hægt er að sækja bæklinginn rafrænt á íslensku, ensku og pólsku.