Þingflokkur Vinstri grænna myndi þurrkast út, ef gengið væri til kosninga núna, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Samfylkingin mælist enn stærsti flokkurinn, með 30% fylgi
Helstu breytingar í nýjum þjóðarpúlsi Gallup er að fylgi bæði Vinstri grænna og Flokks fólksins minnkar um 1,1%. Flokkur fólksins mælist með 6% fylgi og fengi fjóra kjördæmakjörna þingmenn miðað við niðurstöður Gallup.
Fylgi Vinstri grænna mælist 3% og myndi flokkurinn þurrkast út ef miðað er við niðurstöður könnunarinnar.
Áfram mælist Samfylkingin stærst flokka með þrjátíu prósenta fylgi og fengi tuttugu og einn þingmann. Þar á eftir kemur Sjálfstæðisflokkurinn með 18% og tólf þingmenn. Miðflokkurinn mælist þriðji stærsti flokkurinn með 13% fylgi og fengi níu þingmenn.
Framsóknarflokkurinn og Píratar mælast báðir með 9% og fengju sex þingmenn. Viðreisn mælist með 8% og fengi fimm þingmenn.
Sósíalistaflokkur Íslands er næstminnsti flokkurinn með 4% fylgi og næði ekki manni inn á þing.
Einnig var spurt um stuðning við ríkisstjórnina og mældist hann 29%.