Lögregla aðstoðaði við leit að fólki sem var í botni Veiðileysufjarðar á leið til Hornvíkur á mánudag. Neyðarskilaboð bárust um að tveir aðilar væru týndir í þoku en hefðu tjald og mat til eins dags. Síðar var tilkynnt að landvörður hefði komið til móts við fólkið og aðstoðað það við að koma því heilu og höldnu til Hornvíkur.
Síðar sama dag tilkynnti ökumaður að hjólhýsi hans hafi fokið á hliðina á Gilsfjarðarbrú og lokaði í kjölfarið umferð um brúnna. Engin slys urðu á fólki en kranabíll var kallaður til við að opna umferðina að nýju.
Á mánudagskvöld barst tilkynning um eld í sófa sem staðsettur var fyrir utan heimahús á Ísafirði. Sófinn var alelda og eldurinnn byrjaður að læsa sig í klæðningu hússins. Nágranni brást skjótt við og var að hefja slökkvistarf með handslökkvitæki er lögreglu bar að og tók við slökkvistarfinu. Tókst þeim að ráða niðurlögum eldsins og var húsið vaktað um nóttina til að sjá til þess að engin glóð leyndist í felum. Grunur er um að sígarettuglóð hafi kveikt eldinn.
Á föstudag barst tilkynning um slasaðan göngugarp á Sellátranesi í Vesturbyggð. Hafði þar eldri kona snúið sig á ökkla og talið að hún gæti hafa brotnað. Björgunarsveit og sjúkralið var sent út henni til aðstoðar.
Skömmu eftir miðnættið, aðfaranótt laugardagsins, missti ökumaður stjórn á bifreið sinni við Látur í Ísafjarðardjúpi. Ungt fólk var í samfloti á tveimur bifreiðum og virðist sem annarri bifreiðinni hafi verið ekið fram úr hinni og við það hafi ökumaður aftari bifreiðarinnar fipast og misst stjórn og bifreiðin runnið út af veginum. Enginn slasaðist alvarlega en tjón nokkurt á bifreiðinni. Minnt er á mikilvægi þess að ekið sé með gát.
Á laugardag missti stjórnandi dráttarvélar stjórn á vélinni með þeim afleiðingum að hún fór út af veginum. Þetta gerðist í Strandasýslu. Stjórnandi vélarinnar hlaut ekki alvarleg meiðsl en var fluttur með sjúkrabíl til læknisskoðunar á Hólmavík.
Um miðnættið, aðfaranótt sunnudagsins, var óttast um afdrif göngumanns við Rekavík bak Höfn, leiðinni úr Hornvík í Hlöðuvík. Þyrla LHG var kölluð út og tók tvo lögreglumenn frá Ísafirði með sér norður. Maðurinn fannst heill á húfi í Hlöðuvík. Tveir landverðir á Hornströndum komu að þessari eftirgrennslan.
Í gær varð bílvelta við ánna Pennu í Vatnsfirði. Hafnaði bifreiðin á hvolfi og ökumaður, karlmaður á áttræðisaldri var fluttur til aðhlynningar á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða en hann hafði áverka og baki og mjöðm.
Í gærmorgun voru tveir menn handteknir vegna gruns um nytjastuld á bifreið og ölvunarakstur á Tálknafjarðarvegi. Höfðu þeir tekið bifreið eigu félaga þeirra ófrjálsri hendi og ekið henni burt. Er þeir komu auga á lögregluna stöðvuðu þeir bifreiðina, hlupu út og sögðust hafa verið í fjöruferð. Í þágu rannsóknar málsins og einnig vegna mikillar ölvunar gistu þeir fangaklefa á Patreksfirði um nóttina.
Fjórir ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur í liðinni viku, allir voru þeir í akstri Strandabyggð. Sá sem hraðast ók var á 119 km hraða þar sem leyfilegur hraði er 90.
Þá barst Lögreglustjóranum kæra frá Umhverfisstofnun vegna utanvegsaksturs á Dynjandisheiði. Það mál er í sektarferli. Er brýnt fyrir ökumönnum að fara að öllu með gát og spilla ekki viðkvæmri náttúru og nota aðeins vegi og þekkta vegaslóða