Um mánaðarmótin hófst áætlunarflug milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja. Vegagerðin, fyrir hönd ríkisins samdi við Mýflug um flugið til Vestmannaeyja. Eyjafréttir greindu fyrst frá.
Flogið er fjórum sinnum í viku frá 1. desember 2024 til og með 28. febrúar 2025. Samningurinn hefur þegar tekið gildi og hægt er að bóka flug á vef Mýflugs.
Flugleiðin er styrkt til að tryggja tímabundið lágmarksþjónustu á flugleiðinni á meðan markaðslegar forsendur eru ekki til staðar, enda flugið mikilvægt fyrir íbúa og atvinnulíf á svæðinu, segir í tilkynningu á vef Vegagerðarinnar.
Nota Kingair flugvélar sem taka 7-9 farþega
Fram kemur í svari Vegagerðarinnar til Eyjafrétta/Eyjar.net að í útboði Vegagerðarinnar um flug til Vestmannaeyja á tímabilinu 01.12.2024 – 28.02.2025 hafi verið gerðar kröfur um búnað þeirra véla sem bjóðendur þurftu að uppfylla. Helstu kröfur í útboði voru þær að vélarnar þurfa að vera fjölhreyfla með hverfilhreyflum, vera búnar fullkomnum afísingarbúnaði, ísingarvarnarbúnaði og með heimild til flugs í ísingaraðstæðum eða þekktri ísingu. Einnig þurfa vélarnar að vera búnar tækjabúnaði og heimild fyrir Performance Based Navigation (PBN). Ekki var gerð krafa um ákveðna stærð eða ákveðinn fjölda sæta.
Mýflug er að nota B200 Kingair flugvélar í verkefnið sem stendur en það er flugrekandans að ákveða hvaða vélartegund hann notar í verkefnið svo fremi sem þær uppfylla kröfur útboðsins. B200 Kingair flugvélar taka 7-9 farþega eftir útfærslu vélarinnar hverju sinni. Arðhleðsla skal vera að lágmarki 1.500 kg.
Vegagerðin gerir kröfu um að flogið sé að lágmarki fjórar ferðir í viku fram og til baka. Samningurinn miðar við að boðið verði upp á alls 52 hringferðir og 936 flugsæti á ári ( desember – febrúar ) eða 156 hringferðir og 2.808 flugsæti á samningstímanum sem er 3 ár.