Heilbrigðisráðuneytið vekur athygli á tilkynningu sóttvarnalæknis þar sem hann ítrekar ráðleggingar gegn nauðsynjalausum ferðalögum íbúa Íslands til áhættusvæða vegna COVID-19. Tilkynningin er eftirfarandi:
Á rúmlega einu ári heimsfaraldurs COVID-19 hafa yfir 130 milljónir manna sýkst af völdum SARS-CoV-2 veirunnar í meira en 200 löndum og dauðsföll eru tæplega 3 milljónir, þar af yfir 900 þúsund dauðsföll í Evrópu. Sóttvarnalæknir vill ítreka ráðleggingar gegn nauðsynjalausum ferðalögum íbúa Íslands til áhættusvæða vegna COVID-19. Öll lönd og svæði heims nema Grænland eru skilgreind af sóttvarnalækni sem áhættusvæði. Áhættumat sóttvarnalæknis er samhljóða áhættumati Sóttvarnastofnunar Evrópu. Í mörgum löndum Evrópu er smittíðni há eða mjög há með dreifingu á nýjum afbrigðum veirunnar (sérstaklega svokölluðu B.1.1.7 afbrigði, kennt við Bretland). Bólusetning er enn skammt á veg komin í mörgum ríkjum og því eru ýmsar ferðatakmarkanir í gildi sem og takmarkanir innanlands í flestum löndum sem oft breytast með skömmum fyrirvara.