16,8% ALVARLEGA SLASAÐRA OG LÁTINNA VORU Á RAFHLAUPAHJÓLUM
FJÖLGUN UMFERÐARSLYSA ÁRIÐ 2021
- 31,6% fólks (18-24 ára) hafa ekið rafhlaupahjóli undir áhrifum áfengis
- Banaslysum fer fækkandi
- Færri slasast nú alvarlega vegna ölvunar eða fíkniefna
- Börn slasast minna en oft áður
- Færri bifhjólamenn slasast
- Ungir ökumenn lenda í fleiri slysum en áður
- Eldri ökumenn lenda í fleiri slysum en áður
Slysaskýrsla umferðarslysa sem Samgöngustofa hefur tekið saman fyrir árið 2021 er komin út. Hana má finna hér á vef Samgöngustofu. Árið 2021 var mjög sérstakt ár, bæði hvað varðar umferðaröryggi en einnig þjóðfélagið í heild. Var þetta annað árið í röð þar sem heimsfaraldurs gætti en árin 2020 og 2021 eru þó gerólík hvað varðar umferðaröryggið.
Um töluverða aukningu slysa og slasaðra er að ræða. Fjöldi slasaðra og látinna í fyrra voru 1162 einstaklingar en árið á undan voru það 1015. Árið í fyrra er reyndar undir 10 ára meðaltali frá 2012 til 2021 sem er 1219 og má því segja að til lengri tíma litið sé þróunin í rétta átt. Það eru samt vonbrigði að sjá fjöldann fara upp á við eftir stiglækkun fimm ár á undan og þarf að fara allt aftur til ársins 2016 til að sjá meiri samanlagðan fjölda alvarlega slasaðra og látinna (sjá nánar í kaflanum „Alvarlega slasaðir”).
Þetta er þrátt fyrir að árin 2017 og 2019 hafi verið Covid laus og þ.a.l. mun fleiri verið þátttakendur í umferðinni en árið 2021. Þau ár var t.d. mikill fjöldi ferðamanna á vegum landsins og engar takmarkanir sem drógu úr umferð. Munurinn er þó mestur sé horft til ársins 2020 sem var reyndar mjög sérstakt ár sökum heimsfaraldursins og áhrifa hans á ferðir fólks og ferðalög.
Eru einhverjir tilteknir áhrifavaldar sem skýrt geta þessa aukningu á fjölda slasaðra árið 2021? Árið 2021 bætist inn í slysatölfræðina tegund slysa sem þekktust lítilega árið 2020 og ekkert árin þar á undan. Þetta eru slys af völdum rafhlaupahjóla (sjá nánar í kaflanum „Rafhlaupahjól”).
En það er fleira sem má nefna sem áhrifavalda í aukningu slysa. Í viðhorfskönnun sem Samgöngustofa lét gera í fyrra má sjá slaka í viðhorfi fólks til þeirrar ábyrgðar sem felst í notkun öryggisbelta, að aka ekki eftir neyslu áfengis og nota ekki snjalltæki við akstur svo dæmi séu nefnd. Í raun má segja að slysatölurnar endurspegli að mörgu leyti þetta viðhorf.
BANASLYS
Á síðast ári létust 9 í umferðinni hér á landi og er það einum fleiri en árið á undan og lægra en meðaltal 10 ára sem er 11,9. Það vekur athygli hve stórt hlutfall þeirra sem létust árið 2021 voru gangandi eða hjólandi (á reiðhjóli eða rafhlaupahjóli). Fjórir í þeim hópi vegfarenda létust innanbæjar á höfuðborgarsvæðinu. Fimm voru í fólksbifreiðum utan þéttbýlis.
Hér má sjá fjölda látinna á árunum 2012 til 2021:
- 2021 er fjöldi látinna 9
- 2020 er fjöldi látinna 8
- 2019 er fjöldi látinna 6
- 2018 er fjöldi látinna 18
- 2017 er fjöldi látinna 16
- 2016 er fjöldi látinna 18
- 2015 er fjöldi látinna 16
- 2014 er fjöldi látinna 4
- 2013 er fjöldi látinna 15
- 2012 er fjöldi látinna 9
Til langs tíma erum við að sjá jákvæða þróun hvað varðar fækkun látinna í umferðinni en meðaltal undanfarinna 10 ára er langt undir meðaltali áratuganna á undan. Hér sjáum við meðaltal tiltekinna áratuga frá árinu 1972:
- 1972 – 1981 er meðaltalið 26 látnir á ári
- 1982 – 1991 er meðaltalið 24,9 látnir á ári
- 1992 – 2001 er meðaltalið 20,3 látnir á ári
- 2002 – 2011 er meðaltalið 18,9 látnir á ári
- 2012 – 2021 er meðaltalið 11,9 látnir á ári
Meðaltal látinna á fimm áratugum
Þessi jákvæða þróun í fækkun banaslysa yfir 5 áratugi á sér stað þrátt fyrir mikla aukningu í almennri umferð og aukinn fjölda vegfarenda. Þetta má án efa rekja til aukins öryggis ökutækja, betri vega og ekki síst betri ökumanna en mikil þróun hefur átt sér stað í ökunámi og þeirra krafna sem nú eru gerðar til ökumanna. Auk þess hefur á undanförnum áratugum verið lögð mikil áhersla á almennar forvarnir og fræðslu.
ALVARLEGA SLASAÐIR OG LÁTNIR
Það á sér stað umtalsverð aukning í samanlögðum fjölda alvarlega slasaðra og látinna árið 2021 og þarf að fara aftur til ársins 2016 til að sjá meiri fjölda. Aukningin nemur 33,6% milli áranna 2020 og 2021.
- 2021 er fjöldi alvarlega slasaðra og látinna 208
- 2020 er fjöldi alvarlega slasaðra og látinna 157
- 2019 er fjöldi alvarlega slasaðra og látinna 188
- 2018 er fjöldi alvarlega slasaðra og látinna 201
- 2017 er fjöldi alvarlega slasaðra og látinna 205
- 2016 er fjöldi alvarlega slasaðra og látinna 233
- 2015 er fjöldi alvarlega slasaðra og látinna 194
- 2014 er fjöldi alvarlega slasaðra og látinna 181
- 2013 er fjöldi alvarlega slasaðra og látinna 192
- 2012 er fjöldi alvarlega slasaðra og látinna 145
Fjöldi alvarlega slasaðra og látinna
FÆRRI BIFHJÓLAMENN SLASAST
Það er ánægjulegt að sjá að færri bifhjólamenn slasast í fyrra en tvö ár á undan. Hér má sjá súlurit sem sýnir fjölda slasaðra á þungum bifhjólum og léttum bifhjólum í flokki II.
Fjöldi bifhjólamanna sem lenda í slysum
Enginn bifhjólamaður lést í umferðinni árið 2021 en 21 slasaðist alvarlega. Árið á undan létust 3 bifhjólamenn og 20 slösuðust alvarlega. Heildarfjöldi slasaðra í fyrra var 41 og þegar litið er til 10 ára meðaltals, sem er 48,5, er þróunin jákvæð en betur má ef duga skal.
Hæst náði fjöldi slasaðra bifhjólamanna árið 2008 en þá var fjöldi slasaðra og látinna bifhjólamanna 107 í samanburði við 41 í fyrra. Nokkur ár fyrir 2008 hafði mikill fjöldi fólks keypt sér bifhjól í meintu góðæri og því var mikið um óvana bifhjólamenn í umferðinni.
RAFHLAUPAHJÓL
31,6% fólks á aldrinum 18-24 ára hafa notað rafhlaupahjól undir áhrifum áfengis.
Eins og fyrr sagði vekur sá mikli fjöldi slysa sem verður á rafhlaupahjólum athygli. Mikið er um ölvunarslys á þessum tækjum og verða mörg slysanna um helgar – að kvöldi eða að næturlagi.
Slys á rafhlaupahjólum eru líkt og slys á reiðhjólum að öllum líkindum vanskráð hjá lögreglu og rata þ.a.l. ekki í slysaskýrslu Samgöngustofu. Slysin eru því mun fleiri en hér má sjá. Ástæðan er að margir ökumenn þessara tækja kalla ekki til lögreglu þegar slys á sér stað heldur fara beint á bráðamóttöku eða með öðrum hætti til læknis.
Slasaðir eða látnir á reiðhjóli eða rafhjóli
Á myndinni hér fyrir ofan má sjá þá gríðarlegu aukningu sem verður í fjölda slysa á rafhlaupahjólum í samanburði við annarskonar hjól.
Árið 2021 varð í fyrsta skipti banaslys þar sem ökumaður á rafhlaupahjóli lést.
Af þeim 208 sem slösuðust alvarlega eða létust í umferðinni voru 35 á rafhlaupahjóli, þ.e. 16,8%. Slys á rafhlaupahjólum vega því mjög þungt í fjölda slysa árið 2021. Þó ber að geta þess að ef þau væru tekin út úr menginu væri samt aukning á fjölda alvarlega slasaðra og látinna en þó mun minni – aðeins 13% í stað 32,5%.
Töluvert er um slys vegna ölvunar- og fíkniefnaaksturs á rafhlaupahjóli. Þau eru þó talin vanskráð. Skv. viðhorfskönnun sem Samgöngustofa gerði í lok síðasta árs hafa 42% landsmanna prófað rafhlaupahjól og af þeim hafa 29% notað þau undir áhrifum áfengis. Það þýðir að 12,2% af allri þjóðinni (18 ára og eldri) hafa notað rafhlaupahjól undir áhrifum áfengis.
Skv. sömu viðhorfskönnun hafa 79% í aldurshópnum 18-24 ára prófað rafhlaupahjól og af þeim hafa 40% notað þau undir áhrifum áfengis. Það þýðir að 31,6% fólks á aldrinum 18-24 ára hafa notað rafhlaupahjól undir áhrifum áfengis.
SLYS ELDRI ÖKUMANNA, 67 ÁRA OG ELDRI
Fjöldi slysa meðal eldri ökumanna (67 ára og eldri) eykst umtalsvert árið 2021 og hafa aldrei mælst svo mörg. Heildarfjöldi slysa sem ökumenn í þessum aldurshópi lenda í eru 142. Þar af voru 105 slys með litlum meiðslum, 35 alvarleg og 2 banaslys.
Fjöldi slysa sem ökumenn 67 ára og eldri lenda í
Ökumenn í þessum aldurshópi eru án efa mun fleiri í dag en áður. Heilsufar og þrek þessa aldurshóps hefur aukist og batnað til muna frá því sem fyrrum var og þ.a.l. er algengara að þeir séu þátttakendur í umferðinni. Þess má geta að í fyrrnefndri viðhorfskönnun Samgöngustofu kemur fram að viðhorf þessa aldurshóps, hegðun og ábyrgð í umferðinni er mun meiri og betri en annarra aldurshópa. Líkur á heilsubresti er meiri í þessum aldurshóp en annarra og því kann það og fjölgun þeirra í umferðinni að skýra þessa aukningu.
SAMANBURÐUR VIÐ ÖNNUR LÖND
Við samanburð Evrópuþjóða á fjölda látinna m.v. höfðatölu sést að Norðurlöndin eru að standa sig hvað best í Evrópu og væntanlega þar með í heiminum. Ísland er nokkuð á pari við hin Norðurlöndin en er þó í fjórða sæti af fimm. Fæst banaslys miðað við fólksfjölda eru í Noregi. Þar hefur verið gert mikið átak í eftirliti með hraðakstri og sem dæmi má nefna að á vegum sem eru sambærilegir við íslenska vegi þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst hafa Norðmenn lækkað leyfðan hámarkshraða niður í 70 km/klst. Talið er að þakka megi þennan árangur Norðmanna m.a. því.
SLYS UNGRA ÖKUMANNA, 17 – 20 ÁRA
Fjöldi ökumanna á aldrinum 17 til 20 ára sem lenda í slysum
167 ungir ökumenn á aldrinum 17 – 20 ára lentu í slysum í umferðinni í fyrra en þeir voru 135 árið á undan. Þetta er aukning um u.þ.b. 24% milli ára. Það er áhyggjuefni að eftir stöðuga fækkun ungra ökumanna sem lenda í alvarlegum slysum og banaslysum frá árinu 2016 eykst fjöldi þeirra nú mikið. Þeim fjölgar úr 15 í 29 sem er um 93% aukning.
Ef horft er aftur til ársins 2002 sést þó að töluverð fækkun hefur orðið á slysum meðal ungra ökumanna en meðaltal síðustu 20 ára er 229. Þetta er þó yfir markmiðum stjórnvalda um fækkun slysa en árin 2017 til og með 2020 var fjöldi þeirra undir markmiðum.
SLYSUM Á BÖRNUM FÆKKAR
Fjöldi slasaðra og látinna barna á aldrinum 0 – 14 ára
Eitt barn lést í umferðinni í fyrra en slysum á börnum á aldrinum 0 til 14 ára fækkar og þarf að fara allt aftur til ársins 2014 til að sjá færri slys. Þar munar mest um mikla fækkun slasaðra barna í bifreið en fjöldi þeirra fer úr 47 í 27.Hinsvegar fjölgar um eitt barn sem slasast gangandi eða hjólandi og fer úr 67 í 68. Það er hinsvegar áhyggjuefni að fjöldi alvarlega slasaðra er yfir meðaltali undanfarinna 10 ára sem er 18,8. Fjöldi þeirra árið 2021 er 22 og er því töluvert yfir meðaltalinu.
Það er vitanlega aldrei ásættanlegt að börn búi við þá hættu að slasast eða látast í umferðinni. Í þessu sambandi skiptir áræðni foreldra og forsjáraðila barna mestu máli. Að þau gefi engan slaka á þeim öryggisbúnaði sem í boði er og skylt er að nota. Í því sambandi er rétt að benda á upplýsingar og fróðleik um öryggisbúnað barna í bílum sem finna má á fjölda tungumála á heimasíðu Samgöngustofu – samgongustofa.is/bornibil.
ÖLVUNAR- OG FÍKNIEFNAAKSTUR
Árið 2021 fjölgar slysum þar sem ökumaður er undir áhrifum áfengis. Aukningin er mest hvað varðar slys með litlum meiðslum en það jákvæða er að alvarlegum slysum fækkar og enginn lést í fyrra af völdum ölvunaraksturs.
Fjöldi slysa vegna aksturs undir áhrifum áfengis.
Sama á við um fjölda slysa sem rakin eru til aksturs undir áhrifum fíkniefna og þar fækkar alvarlegum slysum en reyndar átti sér stað eitt banaslys af þess völdum.
Fjöldi slysa vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna.
Árið á undan voru þrjú banaslys þar sem þrír létu lífið af völdum ölvunaraksturs og eitt banaslys, þar sem einn lét lífið, vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna.
Í fyrrnefndri viðhorfskönnun Samgöngustofu kemur fram að fleiri eru nú þeirrar skoðunar að það sé í lagi að aka eftir neyslu áfengis en áður og er ástæða til að hafa áhyggjur af því. Akstur undir áhrifum fíkniefna og áfengis er ein algengasta orsök alvarlegra slysa og því full ástæða til að leiðrétta ranghugmyndir um að þetta sé í lagi.
AÐEINS UM SLYSASKRÁNINGU SAMGÖNGUSTOFU
Umferðarslysaskráning Samgöngustofu byggist á lögregluskýrslum sem fengnar eru úr gagnagrunni ríkislögreglustjóra. Skráð eru öll umferðarslys á Íslandi, hvort sem um erlenda eða íslenska ríkisborgara er að ræða. Eftir sem áður eru slys Íslendinga í útlöndum ekki skráð í slysaskrána.
Frá árinu 2009 hefur samhliða skýrslum lögreglunnar verið stuðst við skýrslur frá Aðstoð og Öryggi, sem er verktaki á vegum tryggingafélaganna. Skráning þeirra einskorðast aðeins við tilfelli þar sem ekkert slys verður á fólki en ávallt er skylt að kalla til lögreglu ef einhver slasast. Vegfarandi telst ekki slasaður nema hann hafi með sannanlegum hætti verið fluttur á sjúkrahús, heilsugæslustöð eða undir læknishendur með sjúkrabifreið, lögreglubifreið, þyrlu eða hann komi til lögreglu og gefi skýrslu um að hann hafi leitað læknisaðstoðar vegna meiðsla.
Banaslys í umferð er skilgreint þannig að látist maður af völdum áverka sem hann hlýtur í umferðarslysi innan 30 daga frá því að slysið á sér stað þá telst hann hafa látist vegna umferðarslyss.