Nú stendur yfir samráðsfundur ASÍ og SA um lífeyrismál. Dagskráin er einkar athygliverð. Ekkert er komið inn á skerðingar á lífeyri sem er án nokkurs vafa lang stærsta hagsmunamál sjóðfélaga. Ekkert á að fjalla um mörg hundruð þúsund milljóna tap sjóðanna í ár og í fyrra, á hlutabréfum, sem mun eflaust leiða til þess að einhverjir, ef ekki allir þurfi að skerða réttindi á næsta ári. Og auðvitað eru málefni sjóðanna gagnvart Grindvíkingum ekki á dagskrá.
En það sem vekur undrun og er auðvitað hneyksli er að fundurinn tók ákvörðun um að upphefja framkvæmdastjóra Creditinfo sem mun halda erindi um siðferðileg álitaefni á fundinum.
Já þið lásuð rétt!
Framkvæmdastjóri Creditinfo er veitt sérstök viðurkenning með boði um að halda erindi um siðferðileg álitaefni eftir að hafa verið nýlega sektað um 38 milljónir króna fyrir að skrá fólk ranglega á vanskilaskrá.
Og ekki nóg með það, tók Creditinfo það nýlega upp að breyta lánshæfismati hjá stórum hluta þjóðarinnar án andmælaréttar og að öllum líkindum á skjön við persónuverndarlög. Afleiðingarnar eru skelfilegar fyrir gríðarlega stóran hóp af fólki sem hafði unnið sig upp úr erfiðleikum, og staðið í skilum, unnið sig upp í lánshæfi en án nokkurs fyrirvara eða andmælaréttar sett rakleiðis í ruslflokk með tilheyrandi afleiðingum. Og það rétt fyrir jólin.
Já lífeyriskerfið hugsar svo sannarlega vel um sig og sína eða þannig. Það skal tekið fram að ég afþakkaði boðið á fundinn með ofangreindum rökum.
Jóhannes S. Ólafsson stöðvaði lögbrot lífeyrissjóða – Tímamóta dómur