Sigurður Ingi Jóhannsson, Innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins er allt annað en ánægður með braskara sem braska með lóðir undir íbúðarhúsnæði. Hann segir að lóðir margfaldist í verði upp á marga milljarða í viðskiptum braskara og sé skýringin á himinháu og óraunhæfu fasteignaverði sem leiðir til fasteignabólu.
,,Lóðarbrask hefur viðgengist á undanförnum árum. Dæmi eru um að lóðir gangi kaupum og sölu um árabil án þess að nein uppbygging hefjist. Lóðarreitir eru keyptir á milljarða króna af aðilum sem selja svo nokkrum vikum síðar á enn fleiri milljarða til bygginga.
Einstaklingur sem kaupir íbúð á reit sem hefur lent í lóðabraski stendur uppi með ennþá hærra kaupverð, þarf að taka enn hærra lán og afleiðingarnar verða enn hærra fasteignaverð sem setur þrýsting á verðbólguna. Ekki er hægt að kalla þetta annað en lóðabrask og hefur ekkert með húsnæðisöryggi fólks að gera.
Til að sporna við þessu óforsvaranlegu athæfi þá mælti ég í vikunni fyrir frumvarpi sem felur í sér skýran hvata fyrir lóðarhafa til hefja uppbyggingu íbúðarhúsnæðis eins og deiliskipulag gerir ráð fyrir.
Ef frumvarpið verður að lögum þá geta sveitarfélög sett inn ákvæði sem heimila þeim að knýja á um framgang samþykkts deiliskipulags og þar af leiðandi uppbyggingu í samræmi við húsnæðisþörf.
Þetta er eitt af fjölmörgum þáttum sem geta unnið að því ásamt öðru að koma jafnvægi á húsnæðismarkaðinn þar sem miklar sveiflur hafa verið á húsnæðisverði og byggingu íbúða.“ Segir Sigurður Ingi Jóhannsson, Innviðaráðherra.