Verkefni lögreglu eru af ýmsum toga, bæði stór og smá en forvitnilegt getur verið að glugga í gamlar skýrslur og lesa um viðfangsefnin hverju sinni. Látum því fylgja með eina slíka skýrslu, en í henni segir frá tamdri gæs sem hvarf á Seltjarnarnesi árið 1940.
Skýrsluhöfundur er Pálmi Jónsson, sem vann í lögreglunni í Reykjavík um árabil, og því upplagt að láta líka fylgja með eina mynd af honum. Þar er hann í hópi góðra manna, en í neðri röð, f.v., eru Guðmundur Hermannsson, Sigurjón Sigurðsson og Pálmi. Í efri röð, f.v., eru svo Erlingur Pálsson, óþekktur, Magnús Sörensen og Sigurður M. Þorsteinsson.
Hópmyndin var tekin árið 1952, en tilefni hennar virðist hafa verið afhending viðurkenninga, mögulega fyrir afrek á íþróttasviðinu. Þess má að endingu geta að fóstursonur Pálma var Hörður Jóhannesson, sem var líka lögreglumaður til áratuga. Hörður vann m.a. alllengi við slysarannsóknir (SRD) og síðar á starfsævinni sem aðalvarðstjóri í Mosfellsbæ. Á þriðju myndinni, sem var tekin árið 1971, eru, f.v., Jónas Bjarnason, Hörður Valdimarsson, Magnús Einarsson, Hörður Jóhannesson og Héðinn Svanbergsson. Ökutækið er Taunus Transit.