Seðlabankinn nýtur traust 23% þjóðarinnar en það er minnsta traust sem mælst hefur síðan 2013. Núna bera 47% lítið traust til bankans. Traust til Seðlabankans hefur aukist allt frá bankahruni 2008 þegar einungis 10% landsmanna báru mikið traust til bankans en 75% lítið. Í mælingum Maskínu 2020 og 2021 voru yfir 50% landsmanna sem báru mikið traust til Seðlabankans en einungis 12-16% báru til hans lítið traust. Það er því algjör viðsnúningur á trausti til bankans. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun Maskínu.
Karlar bera heldur meira traust til Seðlabankans en konur og traust til bankans eykst með hækkandi aldri. Þá eykst traust til Seðlabankans með aukinni menntun.
Kjósendur stjórnarflokkanna bera meira traust til bankans en kjósendur stjórnarandstöðuflokkanna. Mest traust bera kjósendur Sjálfstæðisflokksins til bankans, eða rúmlega 46% þeirra, en minnst meðal kjósenda Sósíalistaflokksins, Pírata og Flokks fólksins eða 9-12%.
Ítarlegri niðurstöður má nálgast hér.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 916, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 12. til 18. október 2023.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.
Mynd: Seðlabankinn