Utanríkisráðherra hefur ákveðið að svara kalli Sameinuðu þjóðanna um framlög til neyðaraðstoðar í Palestínu með 70 milljóna króna framlagi frá íslenskum stjórnvöldum til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA). Framlagið bætist við reglubundið framlag Íslands til stofnunarinnar, sem er ein af samstarfsstofnunum Íslands í mannúðarmálum.
„Sú hryllilega atburðarás sem á sér stað á Gaza svæðinu bitnar helst á almennum borgurum. Fórnarlömbin eru hundruð þúsunda. Ísland hefur fordæmt illvirki hryðjuverkasamtakanna Hamas og minnt Ísrael á mikilvægi þess að farið sé að alþjóðalögum, þar á meðal mannúðarrétti. Slík orð skipta máli, en með því að leggja raunverulegt fjárhagslegt framlag til að hjálpa fórnarlömbum þessa ástands leggjum við af mörkum eitthvað sem getur hjálpað til við að lina þjáningar hluta þeirra sem þjást og eru fórnarlömb aðstæðna. Ég vona að ríki heims muni standa saman um að huga að öryggi og aðstæðum almennra borgara í viðbrögðum sínum við því sem nú á sér stað,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Ísland hefur átt í samstarfi við UNRWA um áratuga skeið en stofnunin sinnir Palestínuflóttafólki á Gaza, Vesturbakkanum og í Austur-Jerúsalem auk þeirra sem hafast við í Jórdaníu, Líbanon og Sýrlandi. Stofnunin veitir víðtæka mannúðaraðstoð og vernd, grunnmenntun, heilbrigðis- og félagsþjónustu. UNRWA er meginviðbragðsaðili Sameinuðu þjóðanna í þeirri neyð sem nú ríkir og aðstoðar jafnt flóttafólk sem aðra sem eiga um sárt að binda vegna átakanna.
Í september sl. undirritaði utanríkisráðherra rammasamning við UNRWA um áframhaldandi stuðning íslenskra stjórnvalda við stofnunina til næstu fimm ára. Með viðbótarframlaginu sem tilkynnt var í dag verða framlög Íslands til stofnunarinnar í ár á pari við samningsbundin framlög næstu ára.