Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar samþykkt
Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar var lögð fram til seinni umræðu og samþykkt á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar. Fjárhagsáætlun nær til næsta árs auk þriggja ára áætlunar fyrir árin 2022-2024. Áætlaður rekstrarhalli A og B hluta sveitarfélagsins nemur 1.221 milljón króna á árinu 2021. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði 5,5% af heildartekjum eða 1,7 milljarðar króna.
Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar 2021:
- Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta neikvæð um 1.221 milljón króna.
- Skuldaviðmið 114% í árslok 2021.
- Áætlað veltufé frá rekstri A- og B-hluta 1,7 milljarðar króna eða 5,5% af heildartekjum.
- Útsvarsprósenta óbreytt eða 14,48%.
- Heildarálagning fasteignagjalda lækkar með lægri fasteignasköttum og vatns- og fráveitugjöldum til að koma til móts við hækkun fasteignamats.
- Almennt er gert ráð fyrir að gjaldskrá 2021 haldist óbreytt eða hækki í takt við vísitölu.
- Áætlun gerir ráð fyrir lóðarsölu að andvirði 500 milljónir króna.
- Áætlaðar fjárfestingar nema samtals 4,3 milljörðum króna.
- Kaup á félagslegum íbúðum nema 500 milljónum króna.
Áhersla lögð á lágmörkun áhrifa Covid19 á íbúa
Eins og önnur sveitarfélög hefur Hafnarfjarðarbær þurft að bregðast við efnahagslegum og samfélagslegum afleiðingum Covid-19 heimsfaraldursins, sem dregið hefur úr útsvarstekjum og samhliða aukið félagsleg útgjöld. Lögð hefur verið áhersla á að lágmarka áhrif faraldursins á íbúa Hafnarfjarðar og koma í veg fyrir að efnahagsáfallið leggi klafa á bæjarfélagið til frambúðar. Það hefur verið gert með samræmdum aðgerðum sem falið hafa í sér markvissa hagræðingu, hóflegar lántökur og eignasölu.
Hægt er að nálgast fjárhagsáætlun og önnur fylgigögn hér: https://www.hafnarfjordur.is/stjornsysla/frettir/fjarhagsaaetlun-hafnarfjardarbaejar-samthykkt