Stjórn stéttarfélagsins VR hefur ákveðið að hætta viðskiptum við Íslandsbanka vegna brota bankans við sölumeðferð á eignarhlut ríkisins í sjálfum sér. Viðbrögð bankans og forsvarsmanna hans eru ófullnægjandi að mati stéttarfélagsins.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef VR og leitar Stéttarfélagið nú tilboða í viðskipti félagsins og þjónustu hjá öðrum fjármálafyrirtækjum.
VR hótað því að færa viðskipti sín frá bankanum í júní og voru vinnubrögð bankans þá gagnrýnd og sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður félagsins, að salan væri áfellisdómur yfir öllum sem að henni komu.
„Þetta eru miklar fjárhæðir. Við erum langstærsta stéttarfélag landsins og við erum með mjög umfangsmikla starfsemi og mjög stóra sjóði í stýringu,“ sagði Ragnar í júní en um er að ræða nokkra milljarða króna. Þá muni VR beina því til Lífeyrissjóðs verzlunarmanna að einnig slíta sínum viðskiptum við bankann.
Í júní sagði Ragnar Þór einnig að stjórnendur Íslandsbanka væru ,,veruleikafirrt fólk“