Í fjölmiðlum hefur undanfarið verið fjallað talsvert um verðhækkanir sem framundan kunni að vera og neytendur muni finna fyrir. Til umfjöllunar hafa verið ýmsar mikilvægar neytendavörur eins og matvæli og raforka.
Keppinautar og hagsmunasamtök fyrirtækja hafa tekið þátt í þessari opinberu umræðu. Nefna má sem dæmi að starfsmenn tveggja fyrirtækja sem eru keppinautar í framleiðslu tiltekins vöruflokks mættu saman í umræðuþátt og ræddu verðhækkanir. Í samtali þeirra voru færð fyrir því rök að hækkandi hráefnisverð hefði leitt til hækkunar á umræddum vörum til neytenda og boðuðu þeir jafnframt að frekari verðhækkanir væru í farvatninu. Í öðru tilviki voru tekin viðtöl við stjórnendur dagvörukeðja og haft eftir þeim að verulegar hækkanir væru framundan.
Þá eru nýleg dæmi um að forsvarsmenn hagsmunasamtaka fyrirtækja hafi tjáð sig opinberlega um að framundan séu hækkanir á ýmsum nauðsynjavörum og eftir atvikum fært rök fyrir nauðsyn slíkra hækkana.
Samkeppnislögin setja keppinautum og samtökum þeirra skorður
Af þessu tilefni er rétt að minna á að samkeppnislög banna hvers konar samráð milli fyrirtækja sem hefur það að markmiði eða af því leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni eða hún takmörkuð. Það getur til dæmis talist til ólögmæts samráðs ef keppinautar ræða saman um væntanlegar verðhækkanir eða miðla upplýsingum um það hver til annars, þ.á m. í opinberri umræðu, t.d. fjölmiðlum.
Til þess að samkeppni þrífist þurfa fyrirtæki að búa við ákveðna óvissu um það hvernig keppinautarnir hyggist bregðast við utanaðkomandi aðstæðum hverju sinni, s.s. verðhækkunum frá birgjum. Í samkeppnisumhverfi leita fyrirtæki mismunandi leiða til að bjóða vörur eða þjónustu á sem hagstæðustu verði, s.s. að hagræða í rekstri, leita betri kjara hjá öðrum birgjum eða draga úr arðgreiðslum. Búi fyrirtæki hins vegar yfir vitneskju um viðbrögð keppinautanna dregur úr hvötum þeirra til að keppa og halda verði niðri.
Meðal annars af þessum ástæðum banna samkeppnislög einnig hvers konar samkeppnishindranir af hálfu hagsmunasamtaka fyrirtækja. Undir það bann fellur til dæmis upplýsingamiðlun samtaka um væntanlegar hækkanir eða sameiginlegur rökstuðningur þeirra fyrir hækkunum.
Viðurkennt er að háttsemi af þessu tagi sé sérstaklega skaðleg á fákeppnismörkuðum.
Fyrirtæki og hagsmunasamtök þeirra mega vænta þess að Samkeppniseftirlitið taki vísbendingar um samkeppnishamlandi háttsemi sem hér er lýst til alvarlegrar athugunar. Brot á samkeppnislögum geta varðað ströngum viðurlögum.
Árétting til fyrirtækja og samtaka þeirra
Með framangreint í huga telur Samkeppniseftirlitið mikilvægt að brýna eftirfarandi fyrir fyrirtækjum og samtökum þeirra:
- Fyrirtæki ættu undir engum kringumstæðum að miðla upplýsingum til keppinauta um fyrirhugaðar eða líklegar breytingar á verði, hvorki opinberlega, á vettvangi hagsmunasamtaka, milliliðalaust, né með öðrum hætti.
- Hagsmunasamtökum fyrirtækja ber að fara gætilega þegar kemur að umræðu og fræðslu sem getur haft áhrif á markaðshegðun félagsmanna. Öll þátttaka þeirra í umræðu um verð og verðlagningu er sérstaklega varhugaverð og ætti ekki að eiga sér stað nema tryggt sé að hún sé innan þeirra marka sem lög leyfa.
- Á samkeppnismarkaði á hækkun á aðfangaverði ekki að leiða sjálfkrafa til hækkunar á verði til neytenda. Samkeppnislög gera ráð fyrir því að hvert og eitt fyrirtæki geri eigin ráðstafanir og taki sjálfstæðar ákvarðanir til að bregðast við slíkum áskorunum, á sínum eigin rekstrarlegu forsendum og án alls samráðs við keppinauta eða hvatningar frá hagsmunasamtökum.
- Framangreint á við óháð því hvort í hlut eiga framleiðslufyrirtæki, innflutningsfyrirtæki, aðrir birgar eða smásalar.
Nánari leiðbeiningar til hagmunasamtaka fyrirtækja og upplýsingar um fyrri mál af þessum toga má finna á þessari leiðbeiningarsíðu.