Innviðaráðherra hefur skipað starfshóp sem hefur það hlutverk að greina og kynna lausnir fyrir húsnæði fyrir Grindvíkinga, með áherslu á uppbyggingu nýrra húsnæðiseininga, vegna afleiðinga náttúruhamfara við Grindavík. Skipunartími starfshópsins er frá 17. nóvember og skal hópurinn skila til ráðherra greinargerð og tillögum, eftir atvikum kostnaðarmetnum, eins fljótt og auðið er en þó í síðasta lagi fyrir lok janúar 2024.
„Hugur okkar er hjá þeim sem neyðst hafa til að yfirgefa heimili sín í Grindavík. Það er mikilvægt að við höfum hraðar hendur til að leysa húsnæðismál Grindvíkinga og draga úr þeirri óvissu sem nú ríkir,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.
Starfshópurinn skal:
- Kortleggja möguleika á uppbyggingu nýrra húsnæðiseininga og annarra nýskapandi lausna sem að framleiðsluaðilar hafa þekkingu á.
- Skilgreina kröfur til húsnæðis, þ.e. húsnæði skal vera af viðunandi gæðum, mæta þörfum íbúa varðandi aðstöðu og stærð, staðsetning skal uppfylla samfélagslegar, öryggis- og heilsukröfur um aðgengi að samgöngum, þjónustu og atvinnu.
- Greina mögulegar staðsetningar og lóðir fyrir uppbyggingu slíks húsnæðis. Greiningin skal ná til höfuðborgarsvæðisins, Reykjaness og nærliggjandi sveitarfélaga. Önnur sveitarfélög verði skoðuð eftir þörfum.
- Meta kostnað, innkaupaferli og annað sem tengist slíkri uppbyggingu, m.a. skipulagslega þætti og lagaumgjörð.
Starfshópinn skipa:
- Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, formaður,
- Valdís Ösp Árnadóttir, sérfræðingur í innviðaráðuneytinu, verkefnisstjóri,
- Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs Reykjavíkurborgar,
- Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar,
- Guðmundur Axel Hansen, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu,
- Hermann Jónasson, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar,
- Hólmfríður Bjarnadóttir, skrifstofustjóri í innviðaráðuneytinu,
- Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs Samtaka iðnaðarins,
- Jón Kjartan Ágústsson, svæðisskipulagsstjóri höfuðborgarsvæðisins, hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu,
- Ólafur Árnason, forstjóri Skipulagsstofnunar,
- Óskar Jósefsson, settur forstjóri Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna.
Með hópnum starfa:
- Helgi Haukur Hauksson, framkvæmdastjóri leigufélagsins Bríetar,
- Kristín Sandra Karlsdóttir, sérfræðingur í innviðaráðuneytinu.
Ráðuneytið greiðir ekki sérstaklega fyrir störf í starfshópnum.
Umræða